Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kosningar í haust - Lilja verður ráðherra

06.04.2016 - 21:18
Mynd: RÚV / RÚV
Boðað verður til kosninga í haust. Nákvæm dagasetning liggur ekki fyrir - hún ræðst af framvindu þingmála. Þetta kom fram á blaðamannafundi Sigurðar Inga Jóhannssonar, verðandi forsætisráðherra, og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, í stiganum í þinghúsinu. Sigurður Ingi vildi ekki gefa upp hvaða ráðherra Lilja Alfreðsdóttir yrði í ríkisstjórninni - sagði að nýr ráðherrar yrði kynntur á morgun. „Það verður eitthvað að koma á óvart á morgun,“ sagði Sigurður.

Boðað hefur verið ríkisráðsfundur á Bessastöðum á morgun klukkan tólf. Þá er reiknað með að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segi af sér formlega sem forsætisráðherra.  Engar breytingar verða á ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins. 

Á fundinum kom fram að það hefði verið Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sem hefði lagt það til að Lilja Alfreðsdóttir yrði ráðherra í ríkisstjórninni. Sigurður Ingi sagði að sú tillaga hefði verið samþykkt í þingflokknum. 

Bjarni ítrekaði það sem hann hefur sagt áður - að það hefði verið stigið stórt skref til að bregðast við ástandinu í landinu eftir umfjöllun um Panamaskjölin - forsætisráðherra hefði sagt af sér. „En við ætlum að stíga viðbótarskref og virkja lýðræðið í landinu, koma til móts við stöðuna og hyggjumst stefna að því að halda kosningar í haust. Nákvæm dagsetning ræðst af framvindu þingmála.“

Bjarni og Sigurður Ingi sögðu báðir að mikivægast í þessu sambandi væri að ríkisstjórnin héldi áfram. Lögð yrði áhersla á stóru málin, meðal annars gjaldeyrishöftin, húsnæðismálin, leigumarkaðurinn og heilbrigðismálin þar sem byggt yrði upp. 

Bjarni gaf jafnframt lítið fyrir þær skoðanakannanir sem birst hefðu í dag.  Sagði alla flokka mælast illa nema einn - sá hefði skriðið inn á þing í síðustu kosningum.  Var Bjarni þar væntanlega að vísa til Pírata. 

Hann sagði jafnframt að vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar yrði felld með 38 atkvæðum. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV