
Eftir fundinn sagði Bjarni að búið væri að grisja nokkuð úr þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Áhersla verði lögð á tiltekin mál. Hann tiltók þó ekki nákvæmlega hvaða mál séu í forgangi. Mörg mál séu komin fram frá öllum ráðuneytum, sem gert er ráð fyrir að klárist á þessu þingi. Aðspurður um hvenær þingkosningar verði, sagði Bjarni
Með öllum fyrirvörum um eðlilegan framgang þingstarfanna, þá vorum við að ræða um það að síðari hluti október gæti verið ágætlega ákjósanlegur tími.
Sigurður Ingi sagði eftir fundinn að óskað hafi verið eftir að starfsáætlun þingsins yrði breytt, í samræmi við nýja þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.
Um dagsetningu kosninga sagði Sigurður Ingi:
Starfsáætlunin miðast við það að við getum lokið þessari þingmálaskrá með eðlilegum hætti núna fyrri part sumars og seinni part sumars og fram á haust, og þá væri hægt að sjá fyrir sér kosningar seinni partinn í október.