Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kosningar boðaðar á Grænlandi

05.03.2018 - 21:24
Mynd með færslu
Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar. Mynd: Johannes Jansson - norden.org
Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, tilkynnti í kvöld að hann ætlaði að boða til nýrra þingkosninga í apríl, hálfu ári áður en kjörtímabilinu lýkur. 

Kilesen sagði að ekki yrði vinnandi vegur að reyna að koma lagafrumvörpum í gegnum vorþing því þingmenn yrðu komnir í kosningaham. Meðal frumvarpa sem nú bíða nýs þings er umdeilt sjávarútvegsfrumvarp. Á vef grænlenska blaðsins Sermitsiaq segir að legga þurfi öll frumvörp sem bíði meðferðar þingsins fram að nýju. 

Kielsen er formaður jafnaðarmannaflokksins Siumut, sem hefur stjórnað með sósíalistaflokknum Inuit Ataqatigiit og miðflokknum Partii Naleraq frá því síðla árs 2016. Sú stjórn var mynduð eftir að fyrri samsteypustjórn Kielsens með Demókrötum og hægriflokknum Atassut féll.

Kielsen boðaði til fundar með fréttamönnum með aðeins klukkustundar fyrirvara og tilkynnti þeim um kosningarnar. Hann lét samráðherra sína ekki vita um fyrirætlanir sínar fyrr en eftir að hann hafði boðað til fréttamannafundarins.

 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV