Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Kosningamiðstöð í gömlu verkstæði

Mynd með færslu
 Mynd:
Sturla Jónsson vörubílsstjóri hefur misst allt sem hann á vegna skulda. Hann er einn af aðalmótmælendum landsins og hann stefnir á framboð í vor undir merkjum Framfaraflokksins, og kosningamiðstöðin hans er í gömlu verkstæði.

„Við erum að hjálpa fólki,“ segir Sturla og vísar í aðstæður þeirra sem sæta löginnheimtu og jafnvel því að heimili þeirra séu boðin upp. Hann segir að það væri kostur ef fleiri frambjóðendur væru jafn duglegir að hjálpa fólki í vanda. 

Sturla kvartar yfir aðstöðumun gagnvart stóru flokkunum. Hann segist nota netið til að koma skilaboðunum á framfæri. Þar á meðal með myndbandi sem hann setti á myndbandavefinn Youtube. „Þarna er ég að tína saman lög sem gagnast almenningi og reyna að létta og hjálpa til.“

„Það voru 3.500 manns sem horfðu á þetta myndband á þremur dögum,“ segir Sturla aðspurður hvort hann telji sig njóta fylgis. Það eru atkvæði sem hann telur að falli sér í skaut. „Ég hef trú á því, já.“

Framboðslistar Framfaraflokksins liggja ekki fyrir ennþá fullmannaðir en Sturla er bjartsýnn og grínast þegar hann er spurður í hvaða sæti hundur hans verður. „Ef þeir gætu verið eins og menn þarna niðri í innanríkisráðuneytið þá skyldi þessi vera í fyrsta sæti, það yrði náttúrulega það albesta,“ segir Sturla og hlær.