Kosningaloforð í brennidepli 1. maí

Mynd með færslu
 Mynd:

Kosningaloforð í brennidepli 1. maí

01.05.2013 - 16:37
Krafa um að efna kosningaloforð var leiðarstefið í ræðum forystufólks verkalýðs og stéttarfélaga í dag, þegar baráttufundir í tilefni fyrsta maí voru haldnir. Nokkur þúsund manns voru á Ingólfstorgi í miðborginni, þar sem Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR hélt sitt ávarp.

„Framsóknarflokkur sem er sigurvegari kosninganna lofar að vinna úr skuldavandanum, taka á verðtryggingunni og tryggja fólki betri lífskjör, auk fleiri og betur launaðra starfa. Nú er komið að efndum.Sjálfstæðisflokkur lofar 20% lækkun á höfuðstól meðal íbúðaláns, lækkun skatta, aukningu ráðstöfunartekna og afnema gjaldeyrishöft. Nú er komið að efndum," sagði Ólafía B. Rafnsdóttir í dag.

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, sagði í sínu ávarpi á Ísafirði að það verði stórt verkefni hjá verðandi stjórnarflokkum að uppfylla kosningaloforð sín og þá ekki síst ef annar flokkurinn krefjist mikilla skattalækkana á sama tíma og dæla eigi hundruðum milljarða út í hagkerfið.

Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB, sagði í sínu ávarpi á Selfossi að krafa samfélagsins sé að stjórnmálaflokkar sem lofuðu umbótum í aðdraganda kosninganna, standi við gefin loforð. Á sama tíma og útifundur stéttarfélaganna í Reykjavík stóð yfir á Ingólfstorgi, mættu um fimm þúsund manns í svokallaða Græna göngu Landverndar og annarra náttúruverndarsamtaka sem endaði með því að grænum fánum var stungið niður fyrir framan Alþingishúsið. 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Stórmál að efna kosningaloforðin

Mannlíf

Fjölmenni í miðbænum

Innlent

Flokkarnir standi við loforð um umbætur