Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kosning: Hver er Bjartasta vonin 2016?

Mynd með færslu
 Mynd: Íslensku tónlistarverðlaunin

Kosning: Hver er Bjartasta vonin 2016?

26.02.2016 - 13:43

Höfundar

Íslensku tónlistarverðlaunin verða afhent þann 4. mars n.k. í Hörpu. Starfsmenn Rásar 2 hafa tilnefnt fimm listamenn til verðlaunanna Bjartasta vonin, en þeir eru; Axel Flóvent, Fufanu, Glowie, Pink Street Boys og Sturla Atlas.

Hlustendur og starfsmenn Rásar 2 velja björtustu vonina á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár. Gjaldgengir eru allir íslenskir nýliðar eða nýliðar sem búa og starfa á Íslandi og vöktu athygli á nýliðnu tónlistarári, óháð útgáfu. Óheimilt er að tilnefna nokkurn í þennan flokk sem áður hefur hlotið tilnefningu til ÍTV, áður gefið út hljómplötu sem aðalflytjandi eða vakið verulega athygli á einhverju tímabili sem er undangengið tímabili ÍTV hverju sinni.

Íslensku tónlistarverðlaunin verða afhent þann 4. mars n.k. í Hörpu. RÚV sendir út beint frá verðlaunahátíðinni. Veljið eitt nafn í flokknum Bjartasta vonin — heppnir hlustendur geta unnið sér inn miða á hátíðina í ár.

Kosningu lauk 3. mars kl. 16.00.

 


Axel Flóvent er 20 ára Húsvíkingur sem stimplaði sig inn á íslenska tónlistarmarkaðinn með útgáfu EP plötunar Forrest Fires sem kom út í maí 2015. Platan vakti athygli um allan heim og hefur lögunum á plötunni verið streymt oftar en 5 milljón sinnum. Axel kemur fram á fjölmörgum tónlistarhátíðum víðsvegar um heiminn á þessu ári, en hann stefnir á útgáfu sinnar fyrstu breiðskífu í lok árs 2016. Útgáfurisinn Sony tók yfir Forest Fires í lok síðasta árs og ætlar að dreifa henni enn víðar en áður.


Teknó dúóið Captain Fufanu, skipað þeim Kaktusi Einarssyni og Guðlaugi Einarssyni, ákvað að skilja kafteininn eftir á reifi í Köln og styttu nafnið í Fufanu. Bandið hefur tekið upp nýja strauma í átt til hins myrka evrópska stíls á 8. og 9. áratugnum. Óhefðbundu rætur hljómsveitarinnar hjálpa þó mikið til við að skilja hvernig Fufanu hefur náð að landa þessum nýja, spennandi hljóm. Platan Few More Days To Go hefur fengið frábæra tóma t.d. 4 stjörnur af 5 í NME, Guardian og á vefsíðunni The 405.


Glowie, eða Sara Pétursdóttir, hóf sinn feril með sigri í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2014. Í byrjun árs 2015 kom svo út lagið No More, sem hún vann með StopWaitGo teyminu og rapparanum Stony. Lagið varð eitt mest spilaða lag ársins á flestum útvarpsstöðvum og lifði góðu lífi fram á haust. Í haust gaf hún svo út lagið Party aftur með StopWaitGo og gerði það lag ekki síður lukku. Þriðja smáskífa Glowie kom svo út á dögunum en heitir hún One Day. Glowie stefnir á útgáfu EP plötu í sumar.


Pink Street Boys var stofnuð við bleika götu í Kópavogi árið 2013, en meðlimir hennar eru Jón Björn Birgisson, Axel Björnsson, Einar Björn Þórarinsson, Víðir Alexander Jónsson og Alfreð Óskarsson. Eftir útgáfu fyrstu breiðskífunnar, Trash, var sveitin tilnefnd til Nordic Music Prize og var Pink Street Boys í kjölfarið valin besta tónleikasveitin á tónlistarverðlaunum Grapevine. Tímaritið Vice vinnur nú að heimildarþætti um sveitinni.


Hljómsveitin Sturla Atlas er skipuð þeim Sigurbjarti Sturlu Atlassyni, Loga Pedro Stefánssyni, Jóhanni Kristófer Stefánssyni og Arnari Inga Ingasyni. Sveitin vakti fyrst athygli hlustenda í apríl á síðasta ári þegar lagið Houses in the Hills kom á netið. Í kjölfarið gáfu þeir út myndbönd við lögin Over Here og San Francisco ásamt því að gefa út frítt mixtape, eða hljóðsnældu, á netinu. Tónlist Sturlu Atlas er rótföst í samtíma hipp-hoppi og dregur þá sérstaklega áhrif frá listamönnum eins og Drake og Frank Ocean.