
Kosið um sameiningu á Austurlandi í dag
Rúmlega 3.500 eru á kjörskrá í sveitarfélögunum fjórum.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum verður sveitarfélag ekki sameinað öðrum sveitarfélögum nema með meirihluta atkvæða og niðurstaða í hverju sveitarfélagi fyrir sig gildir. Ef ekki næst meirihluti fyrir sameiningu í einu sveitarfélagi þá geta hin sameinast, ef þau ná því að vera að minnsta kosti tveir þriðju hlutar sveitarfélaganna og í þeim sveitarfélögum búi að minnsta kosti tveir þriðju hlutar íbúa á svæðinu.
Kjörfundir eru í hverju sveitarfélagi auk þess sem hægt er að kjósa utan kjörfundar.
Í Seyðisfjarðarkaupstað er kosið í Íþróttamiðstöðinni frá klukkan 10 og til tíu í kvöld.
Kjörfundur í Djúpavogshreppi fer fram í Tryggvabúð frá klukkan 10 til 18.
Á Fljótsdalshéraði er kosið í Menntaskólanum á Egilsstöðum frá klukkan níu til klukkan tíu í kvöld og kosið er á Hreppsskrifstofu í Borgarfjarðarhreppi milli klukkan níu og fimm í dag.
Talning hefst ekki fyrr en síðasta kjörstað hefur verið lokað og verður talið og úrslit birt í hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Í aðdraganda kosninganna hefur komið fram að skuldastaðan er mjög misjöfn og skuldir á íbúa mun hærri á Fljótsdalshéraði en á Djúpavogi og Borgarfirði. Bent hefur verið á að fjárfestingaþörf sé líka misjöfn, hún sé lítil á hvern íbúa á Fljótsdalshéraði. Þegar þetta tvennt er lagt saman er auðveldara að bera saman stöðuna.
Á upplýsingavef um sameiningu kemur fram að hugur íbúa sveitarfélaganna til sameiningar var kannaður í mars í fyrra. Þá reyndist meirihluti þátttakenda í Borgarfjarðarhreppi, Djúpavogshreppi, Fljótsdalshéraði og Seyðisfjarðarkaupstað hafa áhuga á sameiningu en meirihluti þátttakenda í Fljótsdalshreppi og Vopnafjarðarhreppi höfðu ekki áhuga og eru ekki með í sameiningaráformunum.
Upplýsingar um fyrirhugaða sameiningu má finna hér.