Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kosið í Taílandi í fyrsta sinn frá valdaráni

24.03.2019 - 04:18
Erlent · Asía · Taíland · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd:
Taílendingar ganga að kjörborðinu í dag, í fyrsta skipti síðan herinn steypti kjörnum stjórnvöldum af stóli árið 2014. Búist er við mikilli kjörsókn þrátt fyrir að herforingjastjórnin hafi búið svo um hnútana að nær ógjörningur er fyrir stjórnarandstæðinga að ná völdum.

Prayut Chan-O-Cha, hershöfðínginn sem leiddi valdaránið og núverandi forsætisráðherra, leiðir flokk sinn, Phalang Pracharat í kosningunum. Samkvæmt lögum sem sett voru af honum og stjórn hans skipar herforingjaráðið alla fulltrúa í öldungadeild þingsins, án kosninga.

Það þýðir að flokknum nægir að fá 126 þingmenn kjörna í neðri deildinni til að tryggja sér meirihluta á þingi, á meðan stjórnarandstæðingar þurfa að koma 376 mönnum á þing, sem er nánast útilokað að þeim takist. Þá eykur það ekki á möguleika stjórnarandstæðinga að Maha Vajiralongkorn, Taílandskonungur, hefur lýst stuðningi við flokk herforingjastjórnarinnar og hvatt kjósendur til að styðja „góða leiðtoga“ til að koma í veg fyrir upplausn í landinu.

Helstu keppinautar forsætisráðherrans og flokks hans eru annars vegar flokkur sem tengist Shinawatra-systkinunum, fyrrverandi forsætisráðherrum landsins, sem herinn hrakti frá völdum, og svo Framtíðarflokkur milljarðamæringsins Thanathorns Joonruangrit, sem er nýgræðingur í stjórnmálunum og einarður andstæðingur herforingjastjórnarinnar.   

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV