
Prayut Chan-O-Cha, hershöfðínginn sem leiddi valdaránið og núverandi forsætisráðherra, leiðir flokk sinn, Phalang Pracharat í kosningunum. Samkvæmt lögum sem sett voru af honum og stjórn hans skipar herforingjaráðið alla fulltrúa í öldungadeild þingsins, án kosninga.
Það þýðir að flokknum nægir að fá 126 þingmenn kjörna í neðri deildinni til að tryggja sér meirihluta á þingi, á meðan stjórnarandstæðingar þurfa að koma 376 mönnum á þing, sem er nánast útilokað að þeim takist. Þá eykur það ekki á möguleika stjórnarandstæðinga að Maha Vajiralongkorn, Taílandskonungur, hefur lýst stuðningi við flokk herforingjastjórnarinnar og hvatt kjósendur til að styðja „góða leiðtoga“ til að koma í veg fyrir upplausn í landinu.
Helstu keppinautar forsætisráðherrans og flokks hans eru annars vegar flokkur sem tengist Shinawatra-systkinunum, fyrrverandi forsætisráðherrum landsins, sem herinn hrakti frá völdum, og svo Framtíðarflokkur milljarðamæringsins Thanathorns Joonruangrit, sem er nýgræðingur í stjórnmálunum og einarður andstæðingur herforingjastjórnarinnar.