Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kosið í Portúgal í dag

06.10.2019 - 06:57
epa07895624 Portuguese Prime Minister and general secretary of the Socialist Party Antonio Costa (C-R) during   the last day of his political campaign for the upcoming legislative elections in Lisbon, Portugal, 04 October 2019. The 2019 legislative elections will take place on 06 October.  EPA-EFE/MARIO CRUZ
 Mynd: EPA-EFE - LUSA
Þingkosningar fara fram í Portúgal í dag. Skoðanakannanir benda til þess að Sósíalistaflokkurinn, undir forystu forsætisráðherrans António Costa, muni fara með sigur af hólmi og halda áfram um stjórnartaumana, annað kjörtímabilið í röð. Vinsældir stjórnarflokksins má rekja til aukins hagvaxtar og vaxandi velmegunar á kjörtímabilinu sem er að ljúka, í kjölfar nokkurra efnahagsþrenginga árin þar á undan.

Velgengni portúgalskra sósíalista er nokkuð á skjön við versnandi gengi vinstri flokka víða í álfunni síðustu ár samfara uppgangi þjóðernissinna og popúlista á hægri vængnum. Síðustu skoðanakannanir, sem birtar voru á föstudag, benda til þess að Sósíalistar fái 36 - 39 prósent atkvæða. Þetta er nokkur aukning frá því í síðustu kosningum en mun þó ekki duga til að tryggja flokknum meirihluta.

Costa verður því áfram að reiða sig á stuðning minnst annars þeirra tveggja flokka, enn lengra úti á vinstri vængnum, sem stutt hafa hann á þessu kjörtímabili. Þetta eru Kommúnistar og Vinstri blokkin, sem samanlagt njóta stuðnings um 17 prósenta kjósenda samkvæmt nýjustu könnunum.

230 fulltrúar sitja á portúgalska þinginu en kjósendur eru um 10,8 milljónir talsins. Kjörstaðir voru opnaði klukkan sjö að íslenskum tíma og verður lokað klukkan átján. Búist er við að úrslit liggi nokkurn veginn fyrir seint í kvöld. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV