Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kosið aftur um sjálfstæði Skota haustið 2018?

09.03.2017 - 04:28
epa05600963 Scottish First Minister Nicola Sturgeon after attending a meeting of the Joint Ministerial Committee in N10 Downing street in London, Britain, 24 October 2016. Discussions focus on issues around EU negotiations and the Economy.  EPA/FACUNDO
 Mynd: EPA
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, segir það „heilbrigða skynsemi“ að velja haustið 2018 til að endurtaka kosningar um sjálfstæði Skota, verði það gert á annað borð. Þetta kemur fram í viðtali við Sturgeon, sem birt verður í breska ríkissjónvarpinu, BBC, í dag. Hún fullyrti þó sem fyrr, að engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin um að boða til slíkra kosninga. Í viðtalinu segir hún að farið verði fram með þetta mál á þeim hraða sem hún telji koma Skotum best.

Sturgeon hefur áður sagt það „afar líklegt“ að blásið verði til nýrra kosninga um sjálfstæði Skota eftir að Bretar ákváðu að segja skilið við Evrópusambandið, og skammt er síðan hún lýsti því yfir í ræðu sem hún hélt í Edinborg, að önnur atkvæðagreiðsla um sjálfstæði gæti reynst óhjákvæmileg til að verja skoska hagsmuni.

Sturgeon er spurð að því í viðtalinu, hvort haustið 2018 sé líkleg dagsetning fyrir slíkar kosningar. Svarar hún því til, að ef stjórn hennar ákveði að fara þá leið, þá sé það heilbrigð skynsemi að blása til kosninganna eftir að samningur Breta og ESB um Brexit liggur fyrir í grófum dráttum, en áður en Bretar ganga formlega úr ESB. Aðspurð, hvort hún útiloki þá ekki haustið 2018 segist Sturgeon ekki útiloka neitt í þessu sambandi.

Í frétt vefútgáfu BBC af málinu segir að tilfinning þeirra sem til þekkja á hvort tveggja skoska og breska þinginu sé sú, að Sturgeon sé í raun harðákveðin að endurtaka sjálfstæðiskosningarnar, og það frekar fyrr en síðar. Er talið að Skoski þjóðarflokkurinn meti það svo, að líklegast sé að hafa sigur í þeim kosningum, fari þær fram áður en samningaviðræðunum við ESB er að fullu lokið.

En þótt skoska þingið ákveði að ganga til kosninga haustið 2018 er ekki þar með sagt að þeim verði að þeirri ósk sinni, að því er fram kemur á BBC. Breska þingið þarf nefnilega að gefa grænt ljós á slíkar kosningar, og ekki er víst að þeir sem þar halda um valdataumana láti það eftir Sturgeon og félögum að halda þær þegar þeim best líkar.

Í kosningunum um sjálfstæði Skotlands 2014 kusu 55% með áframhaldandi, fullri aðild að Stóra-Bretlandi, en 45% með sjálfstæði. Í kosningunum um aðild Breta að ESB kaus aftur á móti yfirgnæfandi meirihluti skoskra kjósenda með áframhaldandi aðild, 62% á móti 38%. Sturgeon og ráðuneyti hennar segja aðgang að innri markaði Evrópusambandsins lífsnauðsynlegan fyrir efnahag Skotlands. Skoskir ráðamenn hafa lagt fram tillögur sem þeir vilja meina að geti tryggt þetta, en segja stjórnina í Lundúnum koma í veg fyrir að af þessu geti orðið með þvergirðingshætti sínum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV