Kosið á ný í Vesturbyggð

Vesturbyggð Patreksfjörður
Patreksfjörður. Mynd úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson
Aðeins einn listi bauð fram til sveitarstjórnarkosninga í Vesturbyggð í síðustu kosningum og því var sjálfkjörið og Sjálfstæðismenn og óháðir fengu alla sjö bæjarfulltrúana. Nú býður nýr listi fram til sveitarstjórnarkosninga sem kallar sig Nýja sýn. Oddviti Nýrrar sýnar er Iða Marsibil Jónsdóttir. Hún segir að megináhersla listans sé að koma fleirum að borðinu.

 

Uppbygging í sveitarfélaginu

Ásthildur Sturludóttir hefur verið bæjarstjóri undanfarin átta ár og er áfram bæjarstjóraefni D-listans. Hún segir að á kjörtímabilinu hafi verið ráðist í mikil uppbyggingarverkefni og að þeim verði haldið áfram á næsta kjörtímabili nái D-listi kjöri; hafnarframkvæmdir, gatnaframkvæmdir og stækkun á leikskóla. Einnig sé unnið of því að koma upp ofanflóðavörnum og þá hafi verið gerðar bætur á vatns- og fráveitumálum sveitarfélagsins.

Sjálfkjörið í síðustu kosningum

Iða Marsibil, oddviti Nýrrar sýnar, segir að á lista Nýrrar sýnar sé hópur fólks sem vilji láta til sín taka. Með framboði þeirra gefst íbúum jafnframt kostur á að kjósa -  sem sé mikilvægt. Ásthildur tekur undir það. Friðbjörg Matthíasdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins og óháðra og núverandi forseti bæjarstjórnar segir þó að þrátt fyrir að bæjarstjórn hafi verið sjálfkjörin í síðustu kosningum þá hafi nefndir verið skipaðar með því að auglýsa eftir einstaklingum, óháð flokkum.  

Vilja bæta þjónustu við eldri borgara

Mikill uppgangur er í Vesturbyggð. Íbúum hefur fjölgað og tekjur sveitarfélagsins hækkað hart nær 100 prósent. Iða Marsibil segir að í ljósi uppbyggingar telji Ný sýn mikilvægt að innviðir og þjónustu við íbúa séu í lagi. Framboðið leggi til dæmis sérstaka áherslu á þjónustu við aldraða og vilji koma af stað þreyfingum fyrir hjúkrunarheimili sem skortur er á í sveitarfélaginu. Ásthildur tekur undir að efla megi þjónustu við aldraða og bendir á að í sveitarfélaginu eru áætlanir um nýja þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara og er hönnunarferli að ljúka.

Vilja að Vesturbyggð sé aðlaðandi staður til að búa á

Báðum framboðum er umhugað um að Vesturbyggð sé aðlaðandi staður til að búa á og Iða Marsibil segir Nýja sýn vilja styrkja þjónustu við íbúa frá vöggu til grafar. Lykilatriði sé að dagvistunarmál komist í lag og að ungt fólk komist út á vinnumarkaðinn að loknu fæðingarorlofi. Börnum hefur fjölgað um 25 prósent í skólum Vesturbyggðar á síðustu átta árum og Ásthildur segir reynt að komast til móts við foreldra með því að greiða þeim foreldragreiðslur á meðan börn fá ekki leiksskólapláss. Sjálfstæðismenn eru með á stefnuskrá sinni að bjóða leikskólapláss við 12 mánaða aldur. Á kjörtímabilinu var ráðist í að gera nýja skólastefnu og Ásthildur segir mikilvægt að fá menntað fólk til starfa og sveitarfélagið hefur styrkt fólk til menntunar. Þá vill Iða Marsibil efla móttöku fyrir nýbúa og að marka skýra stefnu um móttöku þeirra. Friðbjörg bendir á að um þessar mundir er unnið að stöðugreiningu í samfélaginu í samstarfi við verkfræðistofuna Eflu. Greining á uppbyggingu innviða, aðstöðusköpun og uppbyggingu á þjónustu. Þá verði skoðaðar mögulegar sviðsmyndir í ljósi uppgangsins í sveitarfélaginu.

Vilja auka íbúalýðræði

Bæði framboð vilja auka íbúalýðræði enn frekar með áframhaldandi íbúafundum og Iða Marsibil leggur áherslu á aukið gagnsæi í sveitarfélaginu. Með sífellt bættri tækni sé hægt að gera starf bæjarstjórnar enn gagnsærra, til dæmis með upptökum bæjarstjórnafunda. Ásthildur segir að í nýju húsnæði standi til að taka upp bæjarstjórafundi.

Ný sýn hefur ekki gefið upp ákveðið bæjarstjóraefni og Iða Marsibil segir að það verði skoðað þegar niðurstöður kosninganna liggja fyrir.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi