Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kosið á ný í Ísrael og lífið í landinu helga

epa06378773 Palestinian women chant slogans at Israeli Riot Police during running clashes on a central East Jerusalem street, 09 December 2017. Police tossed stun grenades and used horses to control hundreds of Palestinians angry at US President Donald J.
Myndin er frá mótmælum í Austur Jerúsalem í byrjun desember.  Mynd: EPA
Það er erfitt að gera sér í hugarlund, hvar á jörðinni pólitíkin sé flóknari en fyrir botni Miðjarðarhafs - í landinu helga. Landinu helga, sem í dag nefnist í daglegu tali Ísrael. En þar er líka Palestína og þessi tvö lönd skarast, sem er þó ef til vill ekki rétta orðið í þessu samhengi. Landnemabyggðir Ísraela hafa á síðustu áratugum teygt sig inn í Palestínu, svolítið eins og kaffislettur á hvítri undirskál. Eða svissneskur ostur.

Það er því ekki pólitískt flækjustig þessara landa sem gerir pólitískan veruleika þessa landsvæðis margslunginn, heldur ástæður sem eru okkur að flestu kunnar - þau áratugalöngu átök sem hafa einkennt samlífi þessara tveggja ólíku þjóða og sent þúsundir í gröfina. 

Flókið samlífi Ísraela og Palestínumanna

Og skyldi kannski engan undra að það sé ekki einfalt að búa í landinu helga. Líklega hefur enginn einn staður á jörðinni haft jafn mikil áhrif á mannkynssöguna og það svæði sem í dag kallast Ísrael - fæðingarstaður Jesú frá Nasaret og staðurinn sem hann dó á - þriðji helgasti staður múslima, og helgasti staður Gyðinga. Þarna urðu Abrahamísku trúarbrögðin til, kristni, íslam og gyðingdómur - og þar býr fólk af ólíkum trúarhópum og kynþáttum. Já, skyldi engan undra að þar hitni í kolunum.  

Kristniboð Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs á Íslandi, með dyggri hjálp ofstopaprestsins Þangbrands, var víst ekki átakalaust en má sín lítils í samanburði við þau aldagömlu átök sem hafa einkennt lífið í landinu helga, átök sem eiga rætur sínar í trúarbrögðum - átök sem náðu hámarki á síðari hluta tuttugustu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu.

Aðrar kosningarnar á þessu ári

Við komum nánar að samlífi Ísraela og Palestínumanna síðar í þessum pistli. Það er víst pólitíkin sem er til umræðu hér, og það er pólitíkin í Ísrael sem vekur athygli Heimskviðna þessa vikuna. Nokkuð sérstök staða er komin upp í ísraelskum stjórnmálum. Kosningar eru í vændum í september, þegar kosið verður til Knesset, ísraelska þingsins, í tuttugugasta og annað sinn - frá stofnun Ísraelsríkis. 120 þingsæti eru í boði. Og hvað með það, kynni einhver að spyrja. Jú, það væri kannski ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að síðast var kosið til þings í apríl á þessu ári. Hvað er eiginlega í gangi?  

epa07832849 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu delivers a statement in Ramat Gan near Tel Aviv, Israel, 10 September 2019. Netanyahu has stated its intention to annex and contain Israeli sovereignty over the Jordan Valley in coordination with the US administration immediately after the elections. Israeli legislative election will be held on 17 September.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.

Natanyahu náði ekki að mynda meirihluta

Björn Malmquist fréttamaður, var á ferðinni á vegum fréttastofunnar í landinu helga í maí á þessu ári, aðeins nokkrum vikum eftir kosningarnar í apríl. Kosningarnar skiluðu nákvæmlega ekki neinu, og því þarf nú að kjósa aftur. 

„Benjamin Netanyahu - sem hefur verið forsætisráðherra síðan 2009 - hann og flokkur hans Likud bandalagið - fékk mesta fylgið í kosningunum í apríl. Þannig að netanyahu fékk umboð til að mynda stjórn, og flestir bjuggust við því að það myndi takast,“ segir Björn. 

Hægriflokkurinn Likud hefur átt góðu gengi að fagna í ísraelskum stjórnmálum allt frá stofnun hans 1973. Netanyahu, núverandi forsætisráðherra, hefur fjórum sinnum setið á forsætisráðherrastóli sem formaður Likud-flokksins, en hann tók við formannsembætti árið 2005 í kjölfar veikinda Ariels Sharons, þáverandi forsætisráðherra. Eitt af flaggskipum Likud-flokksins er hörð þjóðaröryggisstefna og andstaða við stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu.

epa06284405 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu (R) listens to his Defence Minister Avigdor Lieberman (L), as they talk in the Knesset (Parliament) plenum after Netanyahu delivered his speech at the opening of the winter session in the Knesset
 Mynd: EPA
Avigdor Liebermann ásamt Netanyahu í ísraelska þinginu.

Stjórnarmyndanir flóknar í Ísrael

Eins og Björn segir, fékk Likud-flokkurinn mest fylgi í kosningunum í apríl, rúmlega 26%, alls þrjátíu og fimm þingsæti. En eftirleikurinn, sjálf stjórnarmyndunin, hefur reynst Netanyahu erfið. 

„Stjórnarmyndunarviðræður eru allajafna frekar flóknar í Ísrael. Það eru venjulega mjög margir flokkar sem ná fulltrúum á þingið, sumir þeirra eru mjög litlir, þannig að þetta verður alltaf frekar mikið púsluspil. Svo maður tali ekki um að í hægri stjórnum eins og Netanyahu hefur sett saman síðan 2009, þá hafa litlir flokkar til hægri haft eiginlega meiri áhrif en stærð þeirra gefur til kynna,“ segir Björn.

Viðræður flokkanna hófust strax eftir kosningar, en strönduðu á litlum flokki sem heitir Yisrael Beiteinu, sem á íslensku gæti útlagst sem „Ísrael - heimili okkar.“

„Leiðtogi þess flokks, Avigdor Lieberman setti það sem skilyrði að stjórnin myndi leggja fram lagafrumvarp um að strangtrúaðir gyðingar þyrftu að gegna herskyldu - rétt eins og allir aðrir ungir Ísraelar,“ segir Björn. 

Rík áhersla á herskyldu

Fáar þjóðir ef nokkrar leggja jafn ríka áherslu á herinn og herskyldu og Ísraelar. Ekkert ríki, með jafn stutta sögu og Ísrael nútímans, tekið þátt í jafn mörgum styrjöldum og vopnuðum átökum. Herinn þar í landi, sem heimamenn kalla Tzahal, er nokkuð sérstakur fyrir þær sakir að herskylda nær jafnt til karla og kvenna. Fyrir utan fáeinar undantekningar hafa því nær allir fullorðnir Ísraelar hlotið herþjálfun. Í landinu búa einungis rétt rúmlega níu milljónir, en yfir þrjár milljónir á aldrinum 17 til 49 ára hafa hlotið herþjálfun - bæði karlar og konur. Herinn er því ein af grundvallarstoðum ísraelsks samfélags og málefni hans varða samfélagið allt - ekki ólíkt Veðurstofunni hér á landi. 

En ákveðnir hópar eru undanþegnir herskyldu, þar á meðal strangtrúaðir gyðingar, eða Haredim. Þið þekkið þá á slöngulokkunum og svörtu höttunum. Rúmlega ellefu prósent Ísraela eru Haredim, eða rúmlega ein milljón. Og því er Avitor Libermann mótfallinn. Hann hefur lagt fram lagafrumvarp í ísraelska þinginu þess efnis að Haredim gyðingar þurfi að gegna herskyldu eins og aðrir þegnar landsins. Frá þessu hefur hann ekki viljað víkja, og það komi ekki til greina að flokkur hans hjálpi til við ríkisstjórnarmyndun, án þess að þessu sé breytt. 

„Ég er ekki viss hvað Netanyahu fannst um þetta - en aðrir litlir flokkar sem hann var í viðræðum við - voru alfarið á móti þessu," segir Björn.  „Svo rann út fresturinn sem Netanyahu fékk til að mynda stjórn - og í stað þess að láta öðrum það eftir, þá fékk hann sinn flokk, og aðra, til að styðja tillögu um að leysa þingið upp og kjósa aftur og það verður gert 17 september.“ 

Netanyahu í vandræðum

Málið strandaði sem sagt á herskyldunni. Gott og vel. En svo er það Netanyahu sjálfur. Hann er sjálfur í bölvuðum vandræðum um þessar mundir.

„Hann hefur verið sakaður um spillingu og verður líklega ákærður fyrir þrjú slík mál síðar á þessu ári. Natanyahu og Likud flokkurinn voru reyndar búin að leggja fram lagafrumvarp sem veitir þingmönnum og ráðherrum friðhelgi - skjól gegn ákærum - og Netanyahu var líka að leggja drögin að því að draga úr valdi hæstaréttar ísraels til að dæma lög ógild ef þau gangi gegn stjórnarskrá landsins. Nú eru þessi plön auðvitað komin á hilluna og allsendis óvíst hvernig þessar kosningar fara í september - þannig að Netanyahu gæti einhverntímann - kannski á næsta árið, dúkkað upp í dómssal sem sakborningur,“ segir Björn. 

Ákærurnar á hendur Netanyahu eru nokkuð flóknar en snúast í grunninn um spillingu og mútuþægni. Ríkissaksóknari hefur sagt að hann muni gefa út ákæru, meðal annars vegna sambands forsætisráðherrans við kvikmyndaframleiðandann Arnon Milchan, og ástralska milljarðamæringinn James Packer. Netanyahu er gefið að sök að hafa þegið ýmislegt góðgæti frá þeim félögum, meðal annars vindla og kampavín að verðmæti þrjátíu milljóna króna í skiptum fyrir ýmsa greiða og fyrirgreiðslur sem aðeins forsætisráðherrar geta veitt. Netanyahu neitar sök og segir ekkert óeðlilegt við að þiggja gjafir frá vinum. 

Við sjáum hvað setur. Sem stendur er hægri blokkin, sem samanstendur af Likud-flokknum og Kahol Lavan-flokknum, þeim bláhvítu eins og flokkurinn er gjarnan kallaður í daglegu tali, enn í forystu og ef skoðannakannanir halda verða niðurstöðurnar þær sömu og í vor. Og það er ekki ólíklegt að sama patt-staða komi upp, og flokkur Libermanns vilji ekki mynda stjórn með hægri blokkinni. 
 

 

 

 

Mynd: RÚV / RÚV
Fréttaskýring Björns Malmquist um landtökubyggðir Ísraela á Vesturbakkanum.

En sem fyrr segir, er lífið í landinu helga flókið fyrir margra hluta sakir, ekki aðeins vegna þess að allt er í hnút í ísraelskum stjórnmálum. Erfiðar stjórnarmyndunarviðræður og endurtekningar kosningar eru kannski minnsta áhyggjuefnið. Í heimsókn sinni til Ísraels og Palestínu kynntist Björn þessu af eigin raun. 

„Maður getur lesið endalaust af bókum og greinum um deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs, en til að botna í þeim tilfinningum og skoðunum sem liggja til grundvallar, þá þarf maður að keyra í gegnum eftirlitsstöðvarnar á Vesturbakkanum, þar sem varðturnar og háir múrar drottna yfir landslaginu og lítil börn og gamlar konur ganga milli kyrrstæðra bifreiða til að biðja um ölmusu,“ segir Björn.

„Eða þá að ganga um miðborg Hebron á Vesturbakkanum og verða vitni að harðvítugum deilum milli þeirra sem telja að strangtrúaðir Gyðingar hafi fullan rétt til að búa í örsmáum samfélögum þar, kyrfilega aðskildir frá þeim ríflega tvö hundruð þúsund Palestínumönnum sem eiga heima í Hebron.“

 

Mynd: RÚV / RÚV

„Það er líka upplýsandi að standa í miðjum flóttamannabúðum nálægt Ramallah og hlusta á bænasönginn úr moskunni í þessu niðurnídda hverfi, þar sem eitt sinn voru ekkert nema tjöld. Síðan þá hafa þessar búðir breyst í það sem á ensku væri kallað „slum“- samansafn af hrörlega byggðum húsum við þröngar götur þar sem þriðja og fjórða kynslóð Palestínumanna - ungir krakkar - eru að alast upp,“ segir Björn. 

Mynd: RÚV / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Asaf Antman - Wikimedia Commons
Haredim gyðingar.
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður