Kórónufarsóttin dregur úr loftmengun

19.03.2020 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Dregið hefur úr loftmengun um meira en þriðjung í stærstu borgum Danmerkur frá því að kórónaveirufarsóttin braust út. Þetta sýna mælingar Umhverfis- og orkumiðstöðvar landsins, sem starfrækt er við Árósaháskóla. Sömu sögu er að segja víðar um heiminn, þar á meðal í New York.

Fréttastofa danska ríkisútvarpsins hefur eftir Henrik Brønnum-Hansen, lektor í lýðheilsufræðum, að þetta séu góð tíðindi fyrir íbúa Kaupmannahafnar, Árósa, Álaborgar og Óðinsvéa. Íbúar Kaupmannahafnar lifi til dæmis að meðaltali ári skemur en fólk á landsbyggðinni vegna loftmengunarinnar. Þar að auki veikist fólk í borgunum oftar en landsbyggðarfólkið.

Þessi rannsókn sýnir að áhrif kórónaveirunnar eru svipuð í Danmörku og í Kína. Þar dró umtalsvert úr loftmengun eftir að farsóttin braust út. Vísindamenn við Árósaháskóla taka þó fram að ekki sé saman að jafna loftgæðunum í dönskum borgum og stærstu borgum Kína.

Rannsóknir sýna víðar að útbreiðsla kórónaveirunnar hefur haft góð áhrif á andrúmsloftið. BBC greinir til dæmis frá því í dag að kolmónoxíðmengun sé helmingi minni í New York-borg um þessar mundir en á sama tíma í fyrra. Hún stafar aðallega af útblæstri frá bílum. Koltvíoxíðmengun hefur einnig minnkað umtalsvert. Talið er að bílaumferð í borginni sé 35 prósentum minni en um miðjan mars í fyrra. Sérfræðingar reikna með að mengunin aukist hratt eftir að faraldurinn gengur niður.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi