Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kórónaveiran greinist í Þýskalandi

28.01.2020 - 01:22
epa08168533 Vapor blurs the goggles of an ambulance driver while they work, in Wuhan, Hubei province, China, 26 January 2020 (issued 27 January 2020). According to media reports, Wuhan is widely considered as the origin point of the coronavirus outbreak. The virus outbreak has so far killed at least 56 people with around 2,000 infected, mostly in China.  EPA-EFE/YUAN ZHENG CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FEATURECHINA
Heilbrigðisyfirvöld í Bæjaralandi í Þýskalandi staðfestu í kvöld að þar hafi greinst fyrsta tilfellið af hinu nýja afbrigði bráðrar, alvarlegrar lungnabólgu, sem áður óþekkt afbrigði kórónaveiru veldur í mönnum. Veirunnar varð fyrst vart í kínversku borginni Wuhan í Hubei-héraði og þar búa langflestir þeirra sem veikst hafa, en Þýskaland er þrettánda landið utan Kína, þar sem smit-tilfelli hafa verið staðfest. Dauðsföll af völdum veirunnar eru enn sem komið er bundin við kínverska meginlandið.

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytis Bæjaralands segir að maður í bænum Starnberg, um 30 kílómetra suðvestur af München, hafi „greinst með nýju kórónaveiruna,“ og að hann sé nú í einangrun. Ekki kemur fram hvar eða hvernig talið er að maðurinn hafi smitast, en ástand hans er sagt eftir atvikum gott.

Nær öll tilfelli utan Kína hafa greinst í fólki sem er tiltölulega nýkomið frá Wuhanborg og nágrenni. Þýsk yfirvöld mæla með því við borgara sína að forðast ónauðsynlegar ferðir til Kína. Þá íhuga þau að senda flugvél eftir þýskum ríkisborgurum sem komast vilja frá Wuhan og nærliggjandi borgum.