Konur tala svo lengi sem hlustað er á þær

17.09.2019 - 20:52
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Skipuleggjandi alþjóðlegrar metoo-ráðstefnu segist vonast til þess að ráðstefnan verði stór liður í því að áhrif metoo lifi áfram. Ráðstefnan hófst í Hörpu í dag. „Við sjáum nú víða um heim bakslag í kvenréttindum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í kvöldfréttum.

Tvö ár frá upphafi hreyfingarinnar

Tvö ár eru nú frá upphafi metoo-hreyfingarinnar.  Undir formerkjum metoo-hreyfingarinnar hafa konur úti um allan heim stigið fram og greint frá kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni. Metoo-ráðstefnan í Hörpu stendur yfir í þrjá daga og er liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. 

Fólk víða að hefur streymt hingað til lands vegna ráðstefnunnar. Fyrirlesararnir eru 80 talsins, þar af fimmtíu erlendir. Um átta hundruð manns hafa boðað komu sína. 

Ráðstefnan á forsíðu erlendra miðla

Ráðstefnan hefur auk þess vakið athygli víða um heim og prýtt forsíður erlendra miðla. Guardian segir hana stærstu metoo-ráðstefnu sem haldin hefur verið og þá birtir CNN aðsenda grein eftir Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á vef sínum. Þar segir Katrín að ríkisstjórnin hafi hafið endurskoðun á löggjöf og forvarnarstarfi gegn kynferðislegu og kyndbundnu ofbeldi en meira þurfi þó til. 

Afhentu Katrínu viðbragðsáætlun gegn kynferðislegri áreitni

Við setningu ráðstefnunnar afhenti Purna Sen, sérfræðingur hjá UN Women, Katrínu vegvísi með viðbragðsáætlun gegn kynferðislegri áreitni sem samtökin vonast til að verði kynntur hjá stofnunum og fyrirtækjum í landinu. Purna segir Ísland hafa gert margt gott eins og til dæmis að stuðla að jöfnum launum og sett lög þar að lútandi. Það að halda ráðstefnuna hér á landi sýni að konur um allan heim, líka í ríkjum sem standa framarlega í jafnréttismálum, þurfi að glíma við kynbundið ofbeldi. 

„Við öll, um allan heim, þurfum að svara ákalli #metoo um réttlæti og breytingar, með því að endurskoða það sem við gerum og hvernig við gerum það,“

Metoo ráðstefna Purna Sen
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson

Rótgróinn menningarvandi 

Halla Gunnarsdóttir er ráðgjafi forsætisráðherra og leiðir stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi. Hún er aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar. 

„Auðvitað er fullt sem verður kynnt á þessari ráðstefnu sem lýtur að verkferlum og tækjum og tólum til að fást við þann vanda sem Metoo afhjúpaði en þetta er menningarvandi sem er rótgróinn og honum verður ekki breytt í einni svipan. Ég vona að þessi ráðstefna verði stór liður í því að passa að Metoo detti ekki dautt niður heldur haldi áfram.“

Purna segist vonast til þess að áhrif Metoo hreyfingarinnar haldi áfram.

„Það er ekki það að konur hafi aldrei viljað tjá sig um það sem gerist; þær gera það alltaf sýni einhver þeim virðingu og gefi sér tima til að hlusta. Væntingarnar hafa breyst. Við þurfum að  sjá til þess að fólk haldi áfram að hlusta á og læra af hreyfingunni og sjá svo, út frá því, hvað við getum gert til að tryggja að það sem kallað er eftir verði að veruleika.“

Margt áunnist á Íslandi

Forsætisráðherra sagði í kvöldfréttum að margt hefði áunnist í þessum málaflokki hér á landi. Til dæmis hefðu atvinnurekendur, verkalýðshreyfingar og stjórnvöld brugðist við í kjölfar hreyfingarinnar og sameinast um að skrifa undir yfirlýsingu um bætta menningu á vinnustöðum. 

Á ráðstefnunni væri verið að kafa dýpra ofan í þessi mál og meðal annars skoða hvort umræðan og slíkar reglur og yfirlýsingar hefðu orðið til þess að breyta menningunni og hugarfari fólks.

Hún telur að menningin sé breytast. Til dæmis finnist ungu kynslóðinni ekki það sama sjálfsagt og eldri kynslóðum. Hins vegar séu viðhorfin rótgróin. Til að mynda sýni niðurstöður rannsóknar, sem kynnt var í dag, að kynferðisleg áreitni sé enn verulega útbreidd á vinnustöðum. 

Forsætisráðherra sagði að konur af erlendum uppruna hefðu orðið fyrir hvað mestri mismunun. Hún benti á að víða um heim, þegar mannréttindum er ógnað, séu það konur af erlendum uppruna og minnihlutahópar sem verða fyrstir fyrir barðinu á því.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi