Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Konur sem eiga skilið að tekið sé eftir þeim

Mynd: RÚV / RÚV

Konur sem eiga skilið að tekið sé eftir þeim

10.05.2019 - 10:43

Höfundar

Kvikmyndin Steel Magnolias hafði mikil áhrif á Maríu Guðmundsdóttur hjúkrunarfræðing og leikkonu en hún lék sjálf í leikritinu sem myndin byggist á í uppsetningu bæjarleikhússins í Mosfellsbæ.

Kvikmyndin Steel Magnolias eftir leikstjórann Herbert Ross byggist á leikriti eftir Robert Harling. Myndin fjallar um ungan snyrtifræðing sem flytur í smábæ og fær sér vinnu á nálægri hárgreiðslustofu. Þar kynnist hún hópi kvenna sem eiga í nánu vinasambandi og bjóða hana velkomna í hópinn. Meðal leikara eru þær Dolly Parton, Shirley MacLaine, Olympia Dukakis og Sally Field.

„Ég var ekki búin að sjá Steel magnolias þegar ég lék í leikritinu,“ segir María Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og leikkona. Leikritið var sett upp hjá Leikfélagi Mosfellsbæjar árið 1998 og bar þá nafnið Stálblóm. „Ég hefði áreiðanlega leikið hlutverkið mitt aðeins öðruvísi ef ég hefði séð myndina fyrst.“

María segist fyrst og fremst hafa hrifist af persónusköpuninni þegar hún loksins sá myndina. „Það er líka svo mikil vinátta á milli þessara kvenna. Þær hjálpa hver annarri í blíðu og stríðu og það snerti mig.“ Hún segir skína í gegn að karakterarnir eru byggðir á raunverulegu fólki, en myndin er að stóru leyti byggð á ævi Roberts Harlings leikskálds sem missti systur sína úr sykursýki. Sykursýkin er rauður þráður í gegnum myndina.

„Þessar konur hittast á sömu hárgreiðslustofunni hvern einasta laugardag og ræða sín persónulegu mál og mál bæjarins. Hárgreiðslustofan er svolítið eins og hverfiskrá eða félagsmiðstöð,“ segir María og bætir við að hún hafi samsamað sig öllum konunum á stofunni. „Mér finnst þær stórkostlegar allar. Fólk á að setjast niður með þessum konum og gleðjast með þeim og gráta með þeim. Það gerði ég allavega í fyrsta sinn sem ég sá þessa mynd,“ segir María og bætir við að lokum: „Þessar konur eiga það sannarlega skilið að tekið sé eftir þeim.“

Kvikmyndin Steel magnolias verður sýnd á laugardagskvöldið klukkan 21. Hún er hluti af sýningaröð sígildra bíómynda á RÚV sem nefnist Bíóást. Þar eru sýndar kvikmyndir sem eiga það sameiginlegt að höfða til breiðs hóps kvikmyndaunnenda og hafa haft áhrif á samtíma sinn og tíðaranda. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Bíóást: Vakti strax sterk viðbrögð hjá mér

Kvikmyndir

Bíóást: „Takið eftir myndmálinu“

Kvikmyndir

Bíóást: Feðgarnir báðir í hlutverki Jesú

Kvikmyndir

Bíóást: Hittir mann beint í hjartastað