Konur ráðnar sem flugmenn í Sádi-Arabíu

13.09.2018 - 17:00
epa06836500 Huda al-Badri, 30, poses behind a steering wheel as women are alowed to drive for the first time through the streets of the capita, Riyadh, Saudi Arabia, in the early morning hours of 24 June 2018 when the royal decree lifted the ban on women
Huda al-Badri undir stýri í borginni Riyadh stuttu eftir að akstursbanni var aflétt. Mynd: EPA
Sádi-Arabíska flugfélagið Flynas hefur tilkynnt að það ætli að taka við atvinnuumsóknum frá konum í störf flugmanna og flugfreyja. Þetta er í fyrsta sinn sem flugfélagið ræður konur í þessi störf, að því er AFP fréttastofan greinir frá.

Konum í Sádi-Arabíu var leyft að aka bílum í júní síðastliðnum eftir margra ára bann. Breytingarnar eru hluti af aðgerðum krónprinsins Mohammed bin Salman til að fjölga konum á vinnumarkaði. Lögum samkvæmt er konum ekki bannað að starfa hjá flugfélögum í Sádi-Arabíu en flugfélögin hafa hingað til ráðið konur frá öðrum löndum, til dæmis konur frá Filippseyjum í flugfreyjustörf. 

Tæplega þúsund sádi-arabískar konur hafa sótt um flugmannsstörfin á þeim sólarhring sem liðinn er síðan opnað var fyrir umsóknir. Fyrir stuttu auglýsti annað flugfélag í landinu, Flyadeal, eftir sádi-arabískum konum í störf flugfreyja. 

Þrátt fyrir að konum í landinu sé nú heimilt að aka bíl er enn langt í land þar til kynjajafnrétti næst. Konur þurfa enn að fá leyfi frá föður, eiginmanni eða öðrum karlkyns ættingja til að ferðast og ganga í hjónaband.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi