Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Konukot opið um helgina vegna kuldans

01.02.2019 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Stefnt er að því að hafa Konukot opið allan daginn á meðan það er eins kalt í veðri og verið hefur. Konukot er neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur og er vanalega aðeins opið frá klukkan 17 til 10 daginn eftir. Þar eru tólf gistipláss.

Konukot er rekið af Rauða krossinum í samstarfi við Reykjavíkurborg. Brynhildur Jensdóttir, forstöðukona Konukots, segir í samtali við fréttastofu að það sé stabíll hópur sem sæki húsaskjól í Konukot. Undanfarna daga hefur nýtingin verið svipuð og vanalega, en að konum þyki það kærkomið að geta verið inni þegar það er svona kalt.

Fleiri rúmum bætt við í Gistiskýlinu

Gistiskýlið við Lindargötu sem er neyðarathvarf fyrir heimilislausa karlmenn opið eins og vanalega um helgina. Þar komast menn inn klukkan 17 síðdegis og þurfa að fara klukkan 10 næsta dag. Gistiskýlið er rekið af Reykjavíkurborg.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa öll rúmin þar verið í notkun og ásókn aukist talsvert með auknum kulda. Í dag var fimm rúmum bætt við á Lindargötu og eru þar nú 30 rúm.