Ásgeir H. Ingólfsson skrifar:
„Svoleiðis verður heimsendir, ekki með kjökri heldur með sólsting.“ Einhvern veginn svona afbakast fleyg lokaorð „Holmennanna“ eftir T.S. Eliott í hausnum á mér í mestu hitabylgju síðari ára í Mið-Evrópu, á meðan ég geng niður manndrápsbrekkuna sem gerir mig örmagna á hverju kvöldi. Svo þegar ég kemst loksins niður á jafnsléttu þar sem hæðirnar mætast, þar er kanallinn, og þar sem maður stendur við árbakkann og horfir yfir ána þar sem veggspjaldið af Bílý, bílý den stendur. Eða Hvítum, hvítum degi, eins og myndin heitir á frummálinu. Við sjáum Ingimund halda á Sölku á óræðum þjóðvegi, þótt ég viti ekki nöfnin á þeim enn þá, fyrir mér eru þetta enn þá bara tveir leikarar – ég er ekki enn þá kominn í bíó. Þar sem himinninn og jörðin eru bæði svo hvít að þau renna saman og draugar fara á stjá, svo vitnað sé lauslega í upphafsorð myndarinnar.
Habsborgskur glæsibragur og kommúnískur grámi
Við erum stödd á sögufrægustu kvikmyndahátíð Austur-Evrópu í frægasta baðstaðnum, Karlovy Vary, eða Karlsbad, eins og þýskir kalla bæinn. Venjulega er þetta athvarf aldraðra og vellauðugra rússneskra, þýskra og kínverskra ferðamanna sem vilja komast í sína spa-meðferð, þetta er svona staður þar sem maður getur óvart lent í partíi með rússnesku mafíunni – en í rúma viku á hverju ári tekur bíóbransinn yfir og þvælist á milli öfganna tveggja, Pupp-hótelsins og Thermal-hótelsins. Pupp er staðurinn þar sem fínustu partíin eru, hótel sem var fyrirmynd Grand Budapest hótelsins í samnefndri bíómynd og er líkt og tákngervingur piparkökuhótelanna sem prýða megnið af gamla bænum. Eða þangað til við komum að hinum enda kanalsins sem þessi hluti miðbæjarins er kallaður eftir, þar sem Thermal-hótelið gnæfir yfir öllu, brútalískt ferlíki sem eru höfustöðvar hátíðarinnar. Fallega ljótt úr fjarska, en afskaplega notalegt, praktískt og vinalegt þegar maður fer að venjast því. Hér eru flestir salirnir og í þessum tveimur hótelum kristallast saga Tékklands, habsborgskur glæsibragurinn og kommúnískur gráminn renna saman í eitt.