Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Konan sem féll í hlíðum Fjarðardals á batavegi

08.08.2019 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Konan sem var bjargað úr læk í hlíðum Fjarðardals í Seyðisfirði í fyrrakvöld er illa slösuð en á batavegi. Hún liggur enn á gjörgæslu og gekkst undir bakaðgerð í gær sem er sögð hafa heppnast ágætlega.

Konan er tvítug og er frá Sviss en starfar á Íslandi. Samkvæmt heimildum fréttastofu er hún vön því að fara um fjallendi, bæði í Sviss og hér á landi.

Konan féll tugi metra í brattri fjallshlíð fyrir ofan golfvöllinn á Seyðisfirði. Þar lá hún slösuð og bjargarlaus í hlíðinni. Kylfingurinn Jóhann Sveinbjörnsson heyrði hjálparköll frá henni og fór til lögreglunnar til að óska eftir aðstoð við að staðfesta að hljóðið kæmi frá manneskju. Bjarki Borgþórsson, lögreglumaður á Seyðisfirði, segir það hafa tekið upp undir klukkustund að finna hvaðan hljóðið kom. Björgunarsveitin hafi verið kölluð strax út. Konan fannst á endanum illa slösuð en með meðvitund. 

Fréttin hefur verið uppfærð.