Kona ógnaði starfsfólki sundlaugar

Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Tilkynnt var um tilraun til ráns í Árbæjarlaug laust fyrir klukkan níu í gærkvöldi.  Í dagbók lögreglunnar kemur fram að kona kom í afgreiðslu sundlaugarinnar og ógnaði starfsfólki og heimtaði peninga. Hún fór síðan af vettvangi án þess að fá peninga. 

Lögregla var kölluð til og leitaði konunnar í hverfinu. Þegar lögreglumenn voru við leit kom tilkynning frá heimili þar nærri þar sem kona hafði farið inn í anddyrið og stolið bíllyklum. Húsráðandi náði að stöðva konuna þegar hún var kominn inn í bílinn. Konan var handtekin og gisti hún fangageymslur lögreglunnar í nótt. 

Þá var tilkynnt um þjófnað rétt eftir klukkan eitt í nótt. Erlendir ferðamenn höfðu verið með bakpoka sinn á veitingahúsi í miðborginni og var pokinn eftirlitslaus um skamma stund.  Þá hafði maður farið í pokann og stolið þaðan áfengisflösku og greiðslukortum.  Atvikið náðist á eftirlitsmyndavél.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi