Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kona ferðamannsins varð vitni að slysinu

10.02.2016 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús H. Jóhannsson - Mudshark
Kona kínverska ferðamannsins, sem lést eftir að hafa fallið í sjóinn við Reynisfjöru í morgun, varð vitni að slysinu. Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Maðurinn stóð við eða upp í stuðlabergi sem er í fjörunni þegar aldan greip hann. Kínverska sendiráðið hefur sett sig í samband við lögregluna á Suðurlandi. Maðurinn var kominn 550 metra frá landi þegar björgunarsveitin Víkverji náði honum.

Sveinn Kristján segir í samtali við fréttastofu að rannsókn á slysinu sé í fullum gangi og að nú standi yfir skýrslutökur. Hann segir að ekki hafi verið mörg vitni að slysinu. „Það voru tvö vitni,“ segir Sveinn - annað þeirra var eiginkona mannsins. Fram kom í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi í morgun að þau hefðu verið á eigin vegum.

Sveinn Kristján segir að um 35 manns hafi tekið þátt í aðgerðum í morgun - frá björgunarsveitum, lögreglu og Landhelgisgæslunni.  Sveinn, sem sagði í fréttum RÚV í gær, að þarna yrði að vera sérstakur gæslumaður, telur það ekki koma til greina að loka fjörunni um stundarsakir. Slíkt sé einfaldlega ógjörningur. Lögreglan hefur engan mannafla eins og sakir standa til að koma fyrir gæslumanni og Sveinn segir að umferðin um Reynisfjöru sé bara eins og aðra daga. „Það eru eflaust komnir ferðamenn niðri í fjöruna.“

Orri Örvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja, var einn þeirra sem tók þátt í björgunaraðgerðum í morgun. Hann segir að maðurinn hafi verið kominn 550 metra frá landi þegar björgunarsveitir náðu honum.  Orri fór sjálfur í sjóinn og segir að hann hafi bæði verið kaldur og mjög kröftugur. „Það var maður í landi sem vísaði okkur að honum“ segir Orri en veðrið á þessum slóðum var mjög gott - logn og sól. 

Þetta er annar kínverski ferðamaðurinn sem deyr í slysi á Íslandi á skömmum tíma. Í byrjun síðasta mánaðar lést kínversk kona við köfun í Silfru.