Komugjöld til lækna hækka allt að 75%

22.01.2013 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Dæmi eru um að gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu hafi hækkað um 75% á síðustu fimm árum. Mest hafa gjöldin hækkað hjá lífeyrisþegum, öryrkjum og atvinnulausum. Gjöld fyrir komu á heilsugæslu hafa hins vegar staðið í stað.

Þetta sést þegar rýnt er í tölur sem Sjúkratryggingar Íslands hafa tekið saman um þróun á gjöldum sjúkratryggðra einstaklinga. Tekið skal fram að til ársins 2010 greiddi fólk á aldrinum 67-69 ára með skertan lífeyri sama gjald og aðrir lífeyrisþegar.

Hér eru nokkur dæmi um verðbreytingarnar:

 

Gjöld fyrir rannsóknir hafa almennt hækkað um ríflega 58%. Hækkunin er hins vegar hlutfallslega meiri hjá lífeyrisþegum og atvinnulausum eða 75%. Þá greiða börn nú 280 krónur fyrir rannsóknir en greiddu 200 krónur áður.

 

Hámarksgreiðsla fyrir aðgerð hjá sérfræðingi hefur hækkað um 48% hjá öllum hópum, farið úr 21.000 krónum, í 31.100 krónur.

 

Almennt hefur komugjald á slysadeild hækkað um 40% en hjá lífeyrisþegum og atvinnulausum nemur hækkunin 50%. Börn greiða hins vegar ekkert.

 

Það kostar líka meira að hitta sérfræðing á göngudeildum sjúkrahúsa. Grunngjaldið hefur hækkað um ríflega 45%. Börn greiða hins vegar ekkert.

 

Gjöld fyrir komu á heilsugæslu á dagvinnutíma hafa hins vegar staðið í stað frá því í janúar 2008 og önnur gjöld fyrir heilsugæsluþjónustu hafa hækkað um 15-18%. Börn greiða nú ekkert fyrir þá þjónustu en greiddu í góðærinu 350 krónur.

 

Hámarksgreiðsla fólks til að öðlast afsláttarkort vegna heilbrigðisþjónustu innan almanaksárs hefur hækkað. Almennt hefur hámarkið hækkað um 48%, úr 21.000 krónum, í 31.100 krónur. Hjá lífeyrisþegum og atvinnulausum hefur hámarkið hækkað um 50%, úr 5.200 krónum, í 7.800 krónur. Samanlögð hámarksgreiðsla vegna allra barna í fjölskyldu hefur hækkað úr 7.000 krónum, í 9.400 krónur, eða um ríflega 34%.

Á þessu fimm ára tímabili hefur neysluvísitalan hækkað um tæp 45 prósent. Launavísitalan hefur hins vegar hækkað um 32 prósent.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi