Komin ró á Siglufirði eftir hellirigningu

11.10.2019 - 11:02
Mynd með færslu
 Mynd: Siglfirdingur.is
Mikil rigning var á Siglufirði í gær. Slökkvilið Fjallabyggðar og björgunarsveit var kölluð út til að fást við afleiðingarnar. Aðgerðir gengu vel og nú er að lægja, segja forsvarsmenn.

Ægileg úrkoma og hávaðarok

„Þetta var hundleiðinlegt í gærkvöldi. Ægileg úrkoma, hávaðarok og sjór hár, sem var ekki til að bæta ástandið,“ segir Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Fjallabyggðar. 

Slökkvilið þurfti að dæla úr fráveitukerfinu, sem hafði ekki undan, og út í sjó. Aðgerðir stóðu yfir fram að miðnætti. Hann segir að nú sé komin ró og friður. Úrkoman hafi minnkað og allt sé í góðum gír. 

Mynd með færslu
 Mynd: Siglfirdingur.is

Lak inn í hús úr niðurföllum og inn um veggi

Björgunarsveitarmenn dældu vatni úr kjöllurum, eða jarðhæðum, þriggja húsa í bænum, segir Lára Stefánsdóttir, í svæðisstjórn björgunarsveitarinnar. Það lak inn í húsin úr niðurföllum og inn um veggi, sem var frekar óhugnanlegt, segir hún. 

Þessi hús standi lágt og stöðuvatn hafði myndast við sum þeirra vegna úrkomunnar. Aðgerðirnar tóku um fjóra tíma og stóðu til um klukkan hálf þrjú í nótt, segir hún. Björgunarsveitarmennirnir hafi verið þaulvanir og kraftmiklir og aðgerðir því gengið vel. 

Henni þyki ekki ólíklegt að tjón hafi orðið en það þurfi að meta það betur í dag. Til dæmis hafi verið parket á gólfum sumra húsanna og auðvitað húsgögn. Að minnsta kosti tuttugu sentímetrar af vatni hafi legið yfir gólfi í einu húsinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Siglfirdingur.is

Úrkoman sást ekki á spám og kom á óvart

Úrkoman á Siglufirði í gær var 83 millimetrar, segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Þá rigndi um tíu millimetrum á klukkustund í nokkra klukkutíma í gærkvöldi. Nú er að draga úr úrkomunni og hún verður lítil eftir hádegi, segir hann. Á morgun megi búast við því að það verði úrkomulaust.

Til samanburðar megi nefna að á Ólafsfirði var úrkoman um 28 millimetrar í gær á sama tíma. Ólafsfjörður er í fimmtán kílómetra í beinni loftlínu frá Siglufirði. Fjarlægðin er því ekki mikil en talsvert munar á ákefð úrkomunnar. 

Hann segist ekki kunna skýringar á því hvers vegna vissir staðir fái á sig meiri úrkomu en aðrir. Auk þess eigi líkön, sem Veðurstofan styðst við, erfitt með að greina slík tilfelli. Úrkoman á Siglufirði í gær hafi því ekki sést á spám og komið svolítið á óvart. Hann segir að þau hjá Veðurstofunni reyni ávallt að læra af svona uppákomum og gera betur. 

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi