Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Komin leysing og vegir eru að detta í flughálku" 

27.12.2019 - 11:38
Innlent · Hálka · Ófærð · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Margrét Elísabet Ólafsdóttir
Gefin hefur verið út gul veðurviðvörun fyrir Norðurland eystra og austanvert landið í dag. Fólk er hvatt til að huga að lausamunum og fara varlega í umferðinni. Gera má ráð fyrir umhleypingasömu veðri næstu daga.

Færð gæti spillst

Búist er við að það hvessi mjög á austanverðu landinu seinnipartinn í dag. Þar má búast við suðvestanstormi, 15-23 m/s. Einna hvassast gæti orðið á Norðurlandi eystra, þar sem vindhviður gætu farið í 40 metra á sekúndu. Færð gæti spillst og eru ökumenn hvattir til að fara varlega. Þá er búist er við talsverðri rigningu á Suðausturlandi og vatnavöxtum í ám og lækjum. Veðrið er rólegra annars staðar á landinu.

„Hvasst og byljótt í svona tvo til þrjá klukkutíma" 

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Vegagerðinni, varar við mikilli hálku Austur- og Norðurlandi. 

„Já, það er auðvitað komin leysing og vegir eru að detta í flughálku á Austur- og Norðurlandi. Það sem er kannski það eftirtektarverðasta í þessu er að það er kröpp lægð sem fer hratt norður yfir austanvert landið og með henni gerir vestan skot, í kjölfar hennar. Það þýðir það að það verður hvasst og byljótt í svona tvo til þrjá klukkutíma, fyrst suðaustanlands núna síðdegis og á Austurlandi í kvöld en þetta gengur nú hratt yfir." 

Er reiknað með að færð spillist?

„Það fylgir þessu leysing, þetta er fyrst og fremst hætta á því að bílar geti fokið útaf, sérstaklega þar sem er flughálka."