Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Koma á fjarskiptasambandi á Filippseyjum

13.12.2012 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Tveir íslenskir björgunarsveitarmenn eru á leið til Filippseyja til að koma á fjarskiptasambandi á hamfarasvæðinu þar sem fellibylurinn Bopha gekk yfir í síðustu viku.

Lárus Björnsson úr Björgunarsveit Hafnarfjarðar og Gísli Rafn Ólafsson sem starfar hjá Nethope, regnhlífarsamtökum stærstu björgunarsamtaka í heimi, fara til Filippseyja á morgun til að koma á fjarskiptasambandi á hamfarasvæðinu.

„Það eru öll fjarskipti úti og rafmagn farið af öllu þannig að allar grunnstoðir eru farnar. Við erum sérfræðingar í að kortleggja það og koma lágmarkssambandi á í byrjun og koma svo með tillögur um hvað þarf að gera til að ná lágmarkssambandi þegar þeir fara af svæðinu,“ segir Ragnar Halldórsson, formaður Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.

Fimm milljónir manna urðu fyrir barðinu á fellibylnum. 740 hafa fundist látnir og um 900 er saknað. Hundruð þúsunda misstu heimili sín. Mjög erfitt er að kortleggja ástandið á meðan fjarskiptasamband liggur niðri.

„Í byrjun verður reynt að koma á VHF fjarskiptum, sem eru almenn talstöðvasamskipti, og svo verður reynt að koma upp búnaði til að koma á GSM-sambandi og almennu tölvusambandi þannig að björgunaraðilar á vettvangi geti fengið upplýsingar og sent frá sér upplýsingar,“ segir Ragnar.