Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kom flóttafólki í örugga höfn og var handtekin

epa07676747 A handout photo made available by Sea-Watch on 27 June 2019 shows Sea-Watch 3 captain Carola Rackete on board the vessel at sea in the Mediterranean, 20 June 2019. Migrant rescue ship Sea-Watch 3, despite the threat of a fine by the Italian government, decided on 26 June 2019 to enter Italian territorial waters near the island of Lampedusa with dozens of migrants on board waiting to disembark.  EPA-EFE/TILL M. EGEN/SEA-WATCH HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Carola Rackete, skipstjóri þýska björgunarskipsins Sea Watch 3 Mynd: EPA-EFE - SEA-WATCH
Carola Rackete, skipstjóri þýska björgunarskipsins Sea Watch 3, var handtekin skömmu eftir að hún sigldi skipi sínu til hafnar á eyjunni Lampedusa í gærkvöld með 40 flóttamenn innanborðs, í trássi við bann ítalskra stjórnvalda. Bátar ítölsku strandgæslunnar hafa hindrað björgunarskipið í að taka höfn á Lampedusa um tveggja vikna skeið en í gær var Rackete nóg boðið og tók strikið í land, enda andlegri og líkamlegri heilsu flóttafólksins farið að hraka mjög að sögn talsmanna Sea Watch-samtakanna.

Rackete var leidd frá borði í lögreglufylgd, sökuð um að sýna herskipi sem vildi meina því för til hafnar mótþróa, samkvæmt fréttum ítalska ríkissjónvarpsins RAI. Hún sýndi lögreglumönnum þó engan mótþróa þegar þeir komu um borð og var hún ekki handjárnuð við handtökuna. Óljóst er hvað verður um flóttafólkið, sem enn hefur ekki fengið að fara frá borði.

Önnur ESB-ríki bjóðast til að taka við fólkinu

Alls var 53 flóttamönnum bjargað um borð í Sea Watch 3 undan Líbíuströndum hinn 12. júní. Ítölsk stjórnvöld hafa þegar hleypt 13 þeirra í land sökum ungs aldurs, þungunar og veikinda, en harðneituðu að leyfa hinum 40 að stíga fæti á ítalska grund fyrr en samningar næðust við önnur Evrópusambandsríki um að taka við þeim í framhaldinu.

Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, greindi svo frá því á G20-fundinum í Osaka í gær að nokkur ESB-ríki hefðu þegar samþykkt að taka á móti fólkinu, en ekki er ljóst hvað ítölsk stjórnvöld ætla að gera fyrir það í millitíðinni.

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, hefur krafist þess að fá skýrar upplýsingar um hvaða lönd ætli að taka hve marga úr hópnum og hvernig haga skuli flutningi þeirra þangað, áður en nokkrum verði hleypt frá borði.

Áður sagði hann flóttafólkið því aðeins fá að fara frá borði ef það yrði flutt rakleiðis til Hollands, en björgunarskipið siglir undir hollenskum fána, eða Þýskalands, heimalands Sea Watch-samtakanna sem gera skipið út.

Neyðarástand um borð en enginn hlustaði

Rackete sagði að bæði hún og forsvarsmenn samtakanna í landi hefðu reynt að ná samningum við stjórnvöld á Ítalíu, í Þýskalandi, Frakklandi og á Möltu, og einnig rætt við embættismenn í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, en allt hafi komið fyrir ekki.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að Rackete hafi verið nauðbeygð að sigla til hafnar án heimildar eftir tveggja vikna óvissuástand, til að tryggja öryggi flóttafólksins. „Nær 60 klukkustundir eru liðnar síðan við lýstum yfir neyðarástandi um borð. Enginn hlustaði. Enginn axlaði ábyrgð. Einn einu sinni erum það við, og Carola Rackete skipstjóri, sem verðum að koma þessum 40 manneskjum í öruggt skjól,“ segir á Twittersíðu Sea Watch.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV