Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Kolviðarverkefnið siglir í strand

21.08.2011 - 19:25
Kolviðarverkefnið, sem átti að sjá til þess að draga úr kolefna-mengun á Íslandi með því að gróðursetja plöntur og þannig kolefnisjafna andrúmsloftið, hefur siglt í strand. Fyrirtæki sem styrktu verkefnið hafa dregið öll sín fjárframlög til baka á síðastliðnum árum.

Illa gengur að afla fjár til gróðursetningar á trjám til þess að vinna gegn kolefnismengun. Ekkert hefur verið gróðursett síðan síðla sumars 2009.

Kolefnisskógurinn er á 190 hektara svæði og er búið að gróðursetja í 150 hektara. Kolviðarsjóðurinn er þó í nokkurskonar pásu eins og er þar sem ekki hefur verið hægt að fá fyrirtæki til þess að styrkja málefnið eftir hrun.

Einar Gunnarsson er skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands. "Kolviðarverkefnið gengur út á það að fyrirtæki og einstaklingar geti kolefnisjafnað sína starfssemi með því að kaupa kolefnisjöfnun," segir Einar. "Og það er fyrsta og eina verkefni Kolviðar hingað til."

Í kringum 350 þúsund plöntum hefur verið komið fyrir á Geitarsandi í Austur-Rangárvallasýslu. Fyrstu trjánum var plantað vorið 2007 með hjálp Skógræktarfélags Rangæinga sem hefur haft umsjón með framkvæmdunum á sandinum. Engum trjám hefur verið plantað síðan sumarið 2009.

"Þetta fór nokkuð vel af stað en síðan náttúrulega fljótlega eftir að verkefninu var launcherað þá urði blikur á lofti og fór að líða nær hruni þá fór nú að þyngjast róðurinn," segir Einar. "Það má segja að eftir hrun þá hafi líka orðið hrun í tekjum sjóðsins."

Ríkið, Orkuveita Reykjavíkur og Kaupþing banki voru helstu styrktaraðilar Kolviðar þegar fyrst var gróðursett fyrir rúmum fjórum árum. En voru einstaklingar jafn duglegir við að gera sitt gegn kolefnismengun?

"Það var kannski ekki eftir björtustu væntingum en það var þónokkuð um það að einstaklingar væru að kolefnisjafna heimilsbílinn og flugferðir í upphafi," segir Einar. "En eins og ég segi þá varði það kannski full stutt. Við kennum því um að fljótlega fór að þrengja mjög að í efnahagslífi okkar."

Á næsta ári mun fara fram fyrsta mæling á kolefnisbindingu á svæðinu og gerir verkefnið ráð fyrir því að það sé mælt á fimm ára fresti. Einar segir að fyrir þá sem þekkja til er augljóst að verkefnið fari fram úr björtustu vonum.