Umræðan um loftslagsógnina er orðin háværari og síðustu vikur hafa, eins og fyrr sagði Ölgerðin, Þjóðkirkjan og fleiri fyrirtæki og stofnanir lýst því yfir að þau hyggist kolefnisjafna starfsemina, flest virðast ætla að kolefnisjafna ár aftur í tímann, sumir gera betur, þannig fagnaði Borgarbókasafnið fimmtugsafmæli Bókabílsins Höfðingja með því að kolefnisjafna losun hans frá upphafi.
Á Uppstigningardag splæsti Orkan í auglýsingakápu utan um Fréttablaðið þar sem viðskiptavinum var tjáð að nú gætu þeir kolefnisjafnað eigin eldsneytiskaup með því að láta afslátt sem þeir ella fengju renna til Votlendissjóðs. Með auglýsingunni fylgdi mynd af glaðbeittu fólki í bíl, sem sökum aldurs er sennilega nokkuð frekur á eldsneytið. En af hverju núna?
Ingunn Agnes Kro framkvæmdastjóri skrifstofu- og samskiptasviðs Skeljungs, segir að síðustu tvö ár hafi fyritækið rýnt styrkveitingar sínar. „Við erum búin að vera að styrkja mikið íþróttafélög og góðgerðarsamtök sem er mjög verðugt verkefni en við fórum að hugsa hvernig við gætum haft sem allra mest jákvæð áhrif á samfélagið, þá fórum við að skoða í leiðinni hvaða neikvæðu áhrif við hefðum og ég held það dyljist nú engum hver þau eru. Þá ákváðum við bara að setja allt okkar púður í loftslagsmál.“
Kolefnisjöfnuð ráðuneyti
Stjórnvöld eru líka í kolefnisjöfnunarhug, kolefnisjöfnun matvælaframleiðslu er gert hátt undir höfði í stjórnarsáttmálanum og ríkisstjórnin samþykkti nýlega loftslagsstefnu stjórnarráðsins sem felur í sér að Stjórnarráðið og öll ráðuneytin kolefnisjafni sig á þessu ári og dragi úr losun koltvísýrings um 40% á næstu tíu árum.
Vegur þungt en ekki í bókhaldinu
Losun frá landi vegur þungt, það liggur fyrir, en tölurnar eru á reiki. Í útdrætti Umhverfisstofnunar úr losunarbókhaldi Íslands 2019 segir að enn sé takmörkuð þekking á þessum losunarflokki og þar með mikil óvissa í losunartölum.
Þegar kemur að alþjóðlegum skuldbindingum duga aðgerðir til þess að binda kolefni svo skammt. Þar gildir nær eingöngu að draga úr losun. Við getum ekki kolefnisjafnað alþjóðlegar skuldbindingar okkar til samdráttar og haldið áfram að losa eins og við gerum.
Þurfi bæði að bursta oftar og hætta sælgætisáti
Elva Rakel segir að kolefnisjöfnun sé mikilvægt tæki en meira þurfi til. „Þetta má ekki vera það eina sem fólk gerir, þá er maður ekki að grípa til næstum því nægilegra aðgerða.“
Samhliða ákvörðunum um kolefnisjöfnun þurfi á stjórnarfundum að taka ákvarðanir um samdrátt í losun, fækka flugferðum, taka Skype-fundi og kaupa rafmagnsbíla.
Það þurfi að vinna samtímis að losun og bindingu. Rétt eins og manneskja með tannskemmdir þurfi bæði að huga að tannburstun og minnka sælgætisát. „Aðalfókusinn á að vera á því að draga úr losun, annars ertu bara að setja plástur á sárið, ekki að koma í veg fyrir upptökin. Ef við höldum bara áfram að losa og losa, það hljóta að vera takmörk fyrir því hvað við getum bundið mikið í þessu lokaða kerfi sem hnötturinn okkar er. En það er nú þegar búið að losa það mikið út í andrúmsloftið og það gengur það hægt að draga úr losuninni að við verðum á sama tíma að vera að hugsa út í bindinguna og vinna af miklum krafti þar.“