Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kolefnisjöfnun: Epli og appelsínur í búbblu

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Það kostar 2000 krónur að kolefnisjafna eitt tonn af koltvísýringi hjá Kolviði en 5000 krónur að kolefnisjafna sama magn hjá Votlendissjóði. Aðferðir sjóðanna eru ólíkar. Spegillinn ræddi við forsvarsmenn sjóðanna og komst að því að ekki er ósennilegt að hluta trjánna í Kolviðarskógum verði brennt í járnblendiverksmiðju, Votlendissjóður lætur nægja að treysta því að landeigendur framtíðar grafi ekki upp úr skurðum og það er hægt að kolefnisjafna sig óháð því hvort heildarlosun eykst eða ekki.

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu þessa pistils var samanburður á kostnaði við að kolefnisjafna strax eitt tonn af koltvísýringi, annars vegar hjá Votlendissjóði og hins vegar hjá Kolviði, rangur. Það kostar 2000 krónur að kolefnisjafna eitt tonn hjá Kolviði en 5000 krónur hjá Votlendissjóði. Hjá Votlendissjóði koma áhrifin fram á nokkrum vikum eða mánuðum og vara árum eða áratugum saman. Því var haldið fram að til að áhrifin kæmu strax fram hjá Kolviði þyrfti að greiða 120 þúsund krónur á hverju ári. Raunin er sú að til að ná fram sömu áhrifum þyrfti einungis að greiða 120 þúsund einu sinni, með því væri bundið 1 tonn af koltvísýringi á ári í 60 ár. 

Í samkeppni en vinna að sama marki

Segja má að sjóðirnir tveir sem bjóða upp á kolefnisjöfnun á Íslandi séu í ákveðinni samkeppni þó þeir stefni að sama marki, því að minnka magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Kolviður hefur verið að í meira en tíu ár, Kolviðarskógarnir eru því farnir að taka á sig mynd. Votlendissjóður var stofnaður í fyrravor, þar á bæ á að ráðast af krafti í fyrstu endurheimtaraðgerðir í sumar og vinna fram á vetur. Unnar hafa verið margar sértækar rannsóknir á bindingu skóga á Íslandi því það er langt síðan skógrækt var samþykkt á vegum Sameinuðu þjóðanna sem aðgerð til að draga úr styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu, séríslenskar rannsóknir á endurheimt votlendis eru færri en þó liggur fyrir að báðar aðgerðirnar virka. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kolviður
Kolviðarskógur á Geitasandi árið 2017.

Umdeilt hugtak

Að bera saman þessa tvo íslensku kolefnisjöfnunarkosti er svo gott sem ómögulegt, það er verið að bera saman epli og appelsínur en samt er þetta kallað sama nafninu, kolefnisjöfnun. 

Kolefnisjöfnun er umdeild en líklega eru margir sammála um það að það sé gott að styðja loftslagsvæn verkefni. Það sem er umdeilt er hvort rétt sé að tengja þann stuðning við losun einstaklinga og fyrirtækja. Tala um jöfnun. 

Sumir tala um syndaaflausn, að kolefnisjöfnun kunni að draga úr hvata fólks til að draga úr losun. Ef raunin er sú að fólk losnar alfarið við flugviskubitið og verður svo ánægt að það flýgur oftar til Tene og eykur losunina, getur kolefnisjöfnun haft neikvæð áhrif. Þetta þyrftu sálfræðingar kannski að skoða. Ef kolefnisjöfnun er séð sem liður í því að bæta upp fyrir þá losun sem ekki var hægt að koma í veg fyrir ætti hún að hafa jákvæð áhrif. 

Að bæta fyrir eigið framhjáhald

Guardian fjallaði um kolefnisjöfnun fyrir nokkrum árum. Í greininni er vitnað er í gagnrýnendur og stuðningsmenn kolefnisjöfnunar. Sumir tala um að ríkisstjórnir ættu að ráðast í loftslagsvænar aðgerðir í stórum stíl, þessar aðgerðir ættu ekki að vera háðar því hvort einstaklingar greiði í einhverja sjóði, aðrir ráðleggja fólki að kolefnisjafna sig margfalt þannig að það bindi meira en það losar en jafni ekki bara. Einn gagnrýnandi líkir því að kolefnisjafna við það að bæta fyrir eigið framhjáhald með því að greiða einhverjum öðrum fyrir að vera maka sínum trúr.  Svipað stef er að finna í nýlegum leiðara Kristjáns Gauta Karlssonar í Skessuhorni, þar gantast  hann með að ætla að hreyfingarjafna sig með því að borga félögum sínum fyrir að fara í ræktina á meðan hann slakar í sófanum.

Umhverfisstofnun: Bæði betra

Í grein Guardian er vísað í blaðamann á loftslagsfréttamiðlinum Grist, hann segir þessi rök ganga upp, ef það er ákveðið magn syndar í heiminum og það sem skiptir máli er ekki framlag einstaklingsins heldur að draga úr heildarsyndinni virki aflátsbréfin því þau geri einmitt það.

Það er ákveðið magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu en fleira kemur til, það er líka ákveðið magn af olíu og það skiptir miklu máli upp á þróunina í loftslagsmálum hvort henni verður brennt eða ekki. Þetta er flókið mál. 

Fulltrúi Umhverfisstofnunar talar fyrir því að fólk og fyrirtæki geri hvoru tveggja, kolefnisjafni og dragi úr losun. Það dugi ekkert minna í ljósi alvarleika vandans.  

Sjá einnig: Kolefnisjöfnun í sókn: „Ekki nóg að bursta“

Votlendi eða skógrækt?

Mynd með færslu
 Mynd:
Endurheimt votlendis.

Aftur að íslensku kostunum. Endurheimt votlendis miðar að því að minnka losun sem ella hefði orðið. Þegar votlendi er framræst kemst súrefni að gömlum plöntuleifum í jarðveginum og þær byrja að rotna, við þetta margfaldast losun frá landinu. Það að þú styðjir við endurheimt votlendis hefur engin áhrif á losun frá bílum og flugvélum. Þú ert einfaldlega að styðja það að gert sé við laskað land og tryggt að losun frá því minnki til muna. Með skógrækt er verið að binda kolefni, það má segja að öfugt við okkur andi tré sem eru í fullu fjöri að sér koltvísýringi og frá sér súrefni. Eftir því sem trén vaxa fjarlægja þau meiri koltvísýring úr andrúmsloftinu. Með skógrækt er verið að nýbinda koltvísýring, það er því hægt að tala um að með þessari aðgerð fjarlægirðu ígildi eigin losunar úr andrúmsloftinu en það gerist á löngum tíma. Þú ert jafnvel ekki búin að jafna losun ársins í ár að fullu fyrr en löngu eftir andlátið. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rudolf Jakkel - Pexels
Skógurinn bindur koltvísýring.

Þrjúþúsund króna verðmunur á tonninu

Það er dýrara að kolefnisjafna hjá Votlendissjóði. Það kostar 5000 krónur að kolefnisjafna eitt tonn, eitt tonn jafngildir losun einstaklings sem flýgur frá Íslandi til Bandaríkjanna og til baka. Hjá Kolviði kostar 2000 krónur að binda tonnið. Hvað veldur? „Það skýrir það náttúrulega að framkvæmdin við að endurheimta votlendi er töluvert dýrari en að rækta skóg. Þarna þarf stórvirkar vinnuvélar til að moka ofan í skurðinn, þjappa, búa til stíflur og hvaðeina. Það er aðallega þetta sem skýrir þennan mismun,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins.

Bindingartíminn styttist og verðið því óbreytt

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr
Það er erfitt að bera saman kostnað við kolefnisjöfnun því verkefnin eru ólík.

Einar Gunnarsson, sem situr í stjórn Kolviðar, segir verðinu hafa verið haldið óbreyttu í nokkuð mörg ár. „Við reiknum okkar viðskiptavinum til góða framtíðarbindingu í skóginum. Í upphafi reiknuðum við með 90 ára binditíma en núna, eftir að við fórum yfir á annað land á Úlfljótsvatni og reiknum þar með meiri bindingu þá í staðinn fyrir að breyta verðinu styttum við hinn reiknaða binditíma.“ 

Koltvíoxíð í sama takti og skógurinn

Það er mikill munur á því hvenær áhrif aðgerðanna koma fram. Áhrif endurheimtar votlendis koma fram nokkrum vikum eða mánuðum eftir að fyllt er upp í skurði. Áhrif skógræktar Kolviðar koma aftur á móti ekki fram að fullu fyrr en sextíu árum eftir gróðursetningu, forsvarsmenn sjóðsins tala um sextíu ára binditíma. Það þýðir að ef þú kolefnisjafnar losun þína í ár lofar Kolviður því að ígildi hennar verði að fullu horfið úr andrúmsloftinu árið 2079. Einar segir að ekki megi leggja alla áherslu á skammtímalausnir í loftslagsmálum. „Þetta finnst sumum allt of langur tími en það er nú þannig að loftslagsmálin eru bara á allt öðrum tímaskala en við erum vön að hugsa á, þau eru á svipuðum tímaskala og skógurinn þrífst á. Helmingunartími koltvíoxíðs sem hefur farið út í andrúmsloftið er einhvers staðar á bilinu 35 til 95 ár og það er akkúrat æviskeið nytjaskóga, það er að segja það sem við köllum eina lotu af skógi.“ 

epa05749710 Exhaust fumes during heavy traffic in central London, Britain, 25 January  2017. Reports suggest London pollution is reaching dangerous levels, with London's pollution levels worse than that of Beijing.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Gróðurhúsalofttegundir streyma upp í loftið í breskri umferðarteppu.

Koltvísýringurinn sem við losuðum í dag og í gær, útblásturinn úr púströrinu, er sem sagt ekkert á förum í bráð og það verður ekki tekið á þeim tiltekna koltvísýringi með endurheimt votlendis. Ekki að það skipti öllu í stóra samhenginu, við skrifum víst ekki nafnið okkar á þær koltvísýringssameindir sem við losum, og bæði endurheimt votlendis og ræktun skóga stuðla að því að minnka magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. 

Skiptir máli hvenær koltvísýringurinn hverfur?

Sumum finnst skipta miklu máli hvenær koltvísýringurinn er fjarlægður eða stöðvaður, vandinn sem við stöndum frammi fyrir sé bráður - við höfum heyrt vísindamenn lýsa því yfir að það séu 11 ár til stefnu, allt það. Með því að versla hjá Votlendissjóði getur fólk strax stöðvað jafn mikið og það losar, ekki bara í eitt ár, heldur árum saman, að því gefnu að losun þess haldist svipuð og að votlendinu sem var endurheimt verði ekki raskað. Til að binda losun ársins strax hjá Kolviði, ekki eftir 60 ár, þyrfti að planta 60 sinnum fleiri trjám í dag. Tonnið myndi kosta 120 þúsund krónur en ekki 2000 krónur. Með 120 þúsund króna eingreiðslu væri eitt tonn af koltvísýringi bundið á hverju ári í 60 ár. Aftur er hér rétt að minna á að aðgerðirnar eru ólíkar og því erfitt að bera þær saman. 

Í greininni gömlu í Guardian kom fram að flestir sjóðir væru farnir að einbeita sér að aðgerðum sem hefðu skjótan ávinning í för með sér. Til dæmis væru verkefni sem stuðla að því að minnka þörf fyrir óendurnýjanlega orkugjafa í þróunarlöndum og bæta samfélög vinsæl, að skipta út skítugum ofnum eða ljósaperum fyrir grænni.

epa06322101 Protesters dressed as polar bears walk next to a protester dressed as US President Donald J. Trump (R) take part in the 'Climate March' demonstration during the UN Climate Change Conference COP23 in Bonn, Germany, 11 November 2017.
 Mynd: EPA
Loftslagsmótmæli í Bandaríkjunum.

Forðast hallamýrar og fara varlega

Ávinningur á hektara er mismikill. Votlendissjóður gengur út frá því að með því að endurheimta hektara votlendis sé hægt að koma í veg fyrir losun 20 tonna af koltvísýringi á ári. Viðskiptavinir kaupa bindingu til eins árs. Eyþór Eðvarðsson, formaður stórnar Votlendissjóðs, segir sérfræðinga á vegum landgræðslunnar og fleiri stofnana tryggja að jarðvegurinn á þeim svæðum þar sem er endurheimt sé raunverulegur mýrarjarðvegur sem losar kolefni. Allar jarðir sem sjóðurinn vinnur með fara í gegnum fagráð sem er skipað fulltrúa Landgræðslunnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands ásamt landslagsarkitekt og jarðvinnusérfræðingi. Ráðið leggur faglegt mat á það hvort tiltekið landssvæði uppfylli skilyrðin sem sett eru, áætlar flatarmálið sem verður endurheimt og ráðleggur á hvern hátt eigi að standa að framkvæmd. Þegar samið er við landeigendur er unnin verklýsing, tekin ákvörðun um hvar skuli setja stíflu og tryggt að vatn renni ekki í gamla skurðfarveginn. Eyþór segir að reynt sé að velja aðeins öruggar jarðir til að endurheimta á, ekki hallamýrar, þar sem stíflur í þeim gætu brostið í ofsarigningum. Sjóðurinn fari varlega með þá peninga sem hann fær. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Sunna Áskelsdóttir situr í fagráði Votlendissjóðs.

Segir stuðlana varlega áætlaða og líklegt að binding aukist

Binding skóga fer eftir trjátegundum. Á vef Kolviðar kemur fram að ræktaðir skógar hér á landi bindi að meðaltali 7,2 tonn af koltvísýringi og að 25 ára gamall asparskógur í Sandlækjarmýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi bindi 20 til 30 tonn á hektara á ári. En hvað binda skógar Kolviðar? Einar segir bindinguna ráðast af gæðum og legu lands, þeim trjátegundum sem er plantað, gróðurfari og fleiru. Áður hafi verið gert ráð fyrir 3,67 tonna bindingu á hvern hektara á ári á 90 ára tímabili en nú sé gert ráð fyrir 5 tonna bindingu á hektara ári á 60 ára tímabili. Stuðst er við stuðla sem rýnihópur samþykkti á sínum tíma, en í honum sátu sérfræðingar í skógrækt og kolefnisbindingu skóga. Einar segir það stefnu sjóðsins að sýna varkárni í útreikningum, hann vilji ekki lenda í því að geta ekki staðið við skuldbindingar, stuðlarnir séu því tiltölulega lágir í dag en hann segir borðleggjandi að þeir komi til með að hækka eftir því sem betri gögn fást um bindingu íslenskra skóga, þau fást með endurteknum mælingum á yfir 300 mælisvæðum yfir langan tíma. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hafnarfjörður
Hafnarfjörður undirritaði kolefnisjöfunarsamning í vikunni.

Líta sjóðirnir í eigin barm? 

Allri starfsemi fylgir einhver losun. Speglinum lék forvitni á að vita hvort sjóðirnir tveir kolefnisjöfnuðu losun vegna eigin starfsemi eða tækju hana með í reikninginn. Það þarf stórvirkar vinnuvélar til að moka ofan í skurði og það að flytja plöntur og fólk eitthvert til að gróðursetja kann líka að hafa í för með sér einhverja losun. Bjarni og Einar segja þetta vega afar lítið í stóra samhenginu. Kolviður er með verksamning við Skógræktarfélag Íslands. „Skógræktarfélagið þarf bara versgú að kolefnisjafna flugferðir og eldsneytisnotkun og allt svoleiðis,“ segir Einar. Bjarni talar á svipuðum nótum. „Við gerum ráð fyrir að eigendur tækjanna geri það sjálfir og það eru nú verktakar sem við störfum með sem gera það svo ég viti, við treystum því alfarið að það sé gert.“

Margir koma að rannsóknum og framkvæmd

Aðgerðir sjóðanna tveggja byggja á rannsóknum og að þeim koma fagráð og fræðimenn, úttektarstofur, háskólar og ríkisstofnanir. Endurskoðunarfyrirtæki fara yfir bókhaldið og eiga að tryggja að sjóðirnir kolefnisjafni í raun jafn mikið og þeir segjast gera. Sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun sagði í samtali við Spegilinn í byrjun júní að það væri æskilegt að fyrirtækin öfluðu sér líka alþjóðlegrar vottunar til að hægt væri að mæla með því að stjórnvöld skiptu við þau, fengju það staðfest frá þriðja aðila að árangur þeirra væri raunverulegur og varanlegur. Fyrirtækin hafa það ekki á stefnuskránni eins og er en fullyrða að árangurinn sé alvöru og gangi ekki til baka.

Sjá einnig: Umhverfisstofnun vill skýrari leikreglur

Nytjaskógur og brennsla ekki út úr myndinni

Einar hjá Kolviði segir gert ráð fyrir að hluti plantnanna lifi ekki af. Þá segir hann að gerðir hafi verið samningar um leigu á landi til 70 ára og í þeim séu ákvæði um að eftir þann tíma verði landið skógi vaxið, það eru engin tímamörk en Einar segist hafa ráðfært sig við löglærða sem telji þetta einfaldlega fela í sér að landið eigi að verða skógi vaxið til eilífðar.

Við Úlfljótsvatn leigir Kolviður land af öðrum stofnaðila sjóðsins, Skógræktarfélagi Íslands, að samningstíma loknum verður skógurinn eign félagsins. Þá er Skógræktarfélaginu heimilt að nýta skógarafurðir þó þannig að það skerði ekki áætlaða kolefnisbindingu á samningstímanum. 

En ef skógar Kolviðar eru felldir í framtíðinni og brenndir, til dæmis í járnblendiverksmiðju, er binding sem viðskiptavinir hafa greitt fyrir þá varanleg? „Það er fullkomlega raunhæft fyrir Kolvið að rækta nytjaskóga, t.d. alaskaösp. Það mætti þá setja dæmið upp þannig að hún væri felld eftir 35 ár og hugsanlega sett í járnblendið á Grundartanga þá værum við samt í plús ef við miðuðum við þessa varfærnu stuðla sem Kolviður notar í dag. Bindingin þar er bara svo mikið meiri og við erum aldrei að taka nema bara hluta af kolefninu til baka, við tökum bolinn en það er bara hluti af kolefnisbindingunni sem hefur átt sér stað. Þetta er því fullkomlega raunhæft dæmi í loftslagsaðgerð. Það fer svo eftir því hvað varan sem framleidd er úr viðnum fer í, hvort kolefnið er áfram bundið í viðnum eða hvort það fer aftur út í andrúmsloftið, það er eitthvað sem þarf að rekja eftir lífsferilsgreiningum. Hvort viðurinn er brenndur eða honum breytt í húsgögn.“ 

Rannsóknir Arnórs Snorrasonar sérfræðings hjá Skógræktinni, styðja það að hægt yrði að binda í samræmi við skuldbingingar, þrátt fyrir að timbrið yrði síðar brennt. Þá bendir fulltrúi Umhverfisstofnunar á að loftslagsávinningur sé af því að nýta innlendan við í járnblendið í stað innfluttra kola. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
TImbur.

Tré binda tímabundið

Hvað varðar varanleika bindingar vegna skógræktar skiptir máli að hafa í huga að tré binda kolefni tímabundið, þau eru hluti af hringrás og þegar þau deyja og rotna losnar kolefnið sem þau bundu aftur út í andrúmsloftið. Það skiptir því máli að þegar það gerist sé nóg af sprækum trjám í kringum þau til að taka við, að skógurinn lifi áfram, þrátt fyrir að stöku tré deyi. 

Semja við landeigendur og treysta þeim

Hvað um varanleika aðgerða í þágu endurheimtar votlendis? Hlynur Óskarsson, sérfræðingur hjá Landbúnaðaháskóla Íslands, segir endurheimt hafi langvarandi áhrif, standi skurðir opnir haldi landið áfram að losa öldum saman. En ef votlendinu er raskað á ný er aðgerðin ekki varanleg. Hvernig tryggir Votlendissjóður að land sem sjóðurinn hefur endurheimt verði ekki ræst fram aftur? 

Eyþór Eðvarðsson, formaður stórnar Votlendissjóðs, segir að gerðir séu sérstakir samningar við landeigendur þar sem þeir skuldbinda sig til að raska ekki landinu. Reynt sé að hafa tímann sem lengstan. Eyþór segir að í samningunum, sem ekki hefur verið þinglýst, séu oft ákvæði um að landinu skuli ekki raskað fyrir árið 2030 en að það ártal sé fyrst og fremst táknrænt. Landeigendur ráðist í endurheimt votlendis af hugsjón og umhyggju fyrir loftslaginu. Votlendissjóður treysti því að þeir selji ekki jörðina til einhverra sem myndu grafa upp úr skurðunum aftur. Hann segir vandað til verka. Sjóðurinn vinni náið með hverju sveitarfélagi og sæki um framkvæmdaleyfi þar sem það þarf, tryggi með hjálp sérfræðinga að endurheimt votlendis leiði ekki til þess að það flæði ekki yfir vegi, inn í hús eða inn á land nágranna. 

Mynd með færslu
Á Bessastöðum í dag. Mynd: RÚV
Frá stofnun Votlendissjóðs síðastliðið vor.

Óhöpp eða náttúruhamfarir

En maðurinn er ekki eina ógnin, ef stíflur bresta gæti landið þornað aftur þá geta skógareldar, sem að vísu eru sjaldgæfir á Íslandi, þurrkað út heilu skógana. Eyþór segir Votlendissjóð skuldbinda sig til þess að fylgjast með landinu í þrjú ár eftir kaup. Viðskiptavinir sjóðsins kaupa stöðvun losunar frá landi í eitt ár en Votlendissjóður tryggi hana í að minnsta kosti þrjú. Eyþór segir að þá sé allt orðið gróið og ætti að vera í lagi áfram, en fari svo að stíflan bresti eftir þrjú ár, hafi samt náðst að stöðva losunina í þessi þrjú ár. Á ársfundi Kolviðar var talað um að leita þyrfti leiða til að takmarka áhættu, til dæmis af völdum skógarelda og sýkinga. 

Fuglar og lækjarsprænur

Í ljósi þess að bæði fyrirtækin sem bjóða upp á kolefnisjöfnun gegn greiðslu á Íslandi starfa á sviði landnotkunar eru í minnisblaði sem ráðgjafarfyrirtækið Environice vann að beiðni Umhverfisstofnunar reifuð sérstök umhugsunaratriði tengd kolefnisjöfnun með aðgerðum á sviði landnotkunar. Fram kemur að þau skili oft ekki árangri fyrr en eftir langan tíma og það geti verið erfitt að meta árangur af þeim þar sem stundum ríki óvissa um umfang og hraða bindingar. Þá kemur fram að það felist áskoranir í því að tryggja að árangur af endurheimt votlendis eða skógrækt sé varanlegur þar sem kolefni sem bundið sé í skóga og jarðveg geti borist aftur út í andrúmsloftið ef landnotkunin breytist síðar. Loks segir í minnisblaðinu að aðgerðir eins og skógrækt og endurheimt votlendis séu oft landfrekar og kunni því að hafa áhrif á aðra landnotkun;  viðkvæm vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni. Eðlilegt kunni að vera að gera sérstakar kröfur varðandi þá þætti. 

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Kríuegg

Velta sjóðirnir fyrir sér hvaða áhrif aðgerðir þeirra til þess að stemma stigu við loftslagsbreytingum hafa á líffræðilegan fjölbreytileika? 

Landgræðslan hefur við endurheimt haft heildræna nálgun að leiðarljósi, ekki aðeins horft til loftslagsmarkmiða heldur einnig þess hvernig hægt sé að endurheimta votlendi þannig að það þjóni vistkerfinu sem best og styðji við líffræðilegan fjölbreytileika. Til dæmis sé hægt að horfa til þess hvort mýrarnar bæti vatnsbúskap tjarna og þar með búsvæði fugla. 

Eyþór hjá Votlendissjóði segir aðgerðir sjóðsins fyrst og fremst snúa að því að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda, það sé aðaláherslan en fleira gott fylgi. Með því að endurheimta votlendi sé þannig stuðlað að líffræðilegum fjölbreytileika. Margir landeigendur horfi  til fuglalífs og vilji endurheimta landið. Sjóðurinn hefur að sögn Eyþórs bent fólki á að í stað þess að fylla alla skurði sé hægt að fylla þá að vatni, jafnvel stífla þá og búa til tjörn. Þá segir Eyþór að mýrar séu liður í því að koma í veg fyrir vatnsþurrð í ám, vatnasvæði áa tengist votlendi. Eyþór segir reynt að fylgja landslagi við stíflugerð þannig að gamlir lækjarfarvegir nái sér. 

Loftslagsávinningur aðaldrifkrafturinn

Einar segir að loftslagsávinningurinn sé aðaldrifkraftur Kolviðar en að það sé líka reynt að tryggja að skógræktin hafi ekki neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir vistkerfið, slík kæmi sér augljóslega illa fyrir viðskiptin. Hann bendir á að í byrjun níunda áratugarins hafi verið unnin handbók um skógrækt og landgræðslu í sátt við umhverfið, kannski svolítið þversagnakennt heiti, segir hann, en í handbókinni hafi verið fjallað um þessa þætti. Þessar leiðbeiningar séu löngu úreltar. Einar segist ítrekað hafa sótt um verkefnastyrk til til umhverfisráðuneytisins til að láta gera nýja slíka handbók en alltaf fengið höfnun. 

Munar um þetta í stóra samhenginu? 

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay

Eftir stendur aðalspurningin, er árangurinn af aðgerðum sjóðanna raunverulegur? Stutta svarið er já, þeir stoppa losun og binda koltvísýring. En munar um það í stóra samhenginu? 

Nokkur óvissa ríkir um losun frá landnotkun hér á landi, en hún er þó talin mjög mikil, um 66% þeirrar losunar sem gert er grein fyrir í losunarbókhaldi sem Umhverfisstofnun skilar til Sameinuðu þjóðanna. Þar er stuðst við landnotkunartölur frá Landgræðslunni, Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktinni. Tölurnar úr nýjustu skýrslunni benda ekki til þess að nettólosun frá landnotkun á Íslandi hafi breyst neitt að ráði frá árinu 1990 til ársins 2017, rúmlega 9 milljónir tonna af koltvísýringsígildum. Binding vegna skógræktar hefur þó sjöfaldast og losun frá framræstu landi aukist um 11%. Rannsóknir benda til þess að hægt sé að hreyfa við þessu jafnvægi, verði farið á fullt í endurheimt og skógrækt, annað hvort á vegum ríkis eða kolefnisjöfnunarsjóða. Í nýjustu skýrslu Hagfræðistofnunar um loftslagsmál, frá 2017, kemur fram að verði aðgerðahraði í mótvægisaðgerðum á sviði landnotkunar fjórfaldaður gæti útstreymi ársins 2030 árið 93% lægra en ársins 1990. Það eru ekki allir sammála um hversu mikið land er tækt til endurheimtar. Hlynur Óskarsson, sérfræðingur í Landbúnaðarháskólanum telur að hægt yrði allt framræst votlendi sem ekki er í notkun endurheimt mætti stöðva 10 til 20% núverandi losunar frá landi. Rannsóknir Arnórs Snorrasonar, sérfræðings hjá Skógræktinni, benda svo til þess að með fjórföldun í nýræktun skóga nú mætti binda um 1,15 milljónir tonna árið 2050. Hér er rétt að hamra á mikilvægu atriði. Ef losunin frá landnotkun minnkar er það gott fyrir loftslagið en það telur lítið í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, þar gildir að draga úr. 

Ekki horft til framræsingar

Væri hægt að selja kolefnisjöfnun þrátt fyrir að nettólosun frá landnotkun væri að aukast á Íslandi eða bara losun almennt? Svarið er já, það er hægt að selja bindingu í bólu. Bjarni, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, segir að endurheimtin sem ráðist er í sé í samræmi við það fjármagn sem sjóðurinn fái en taki ekki mið af stóru myndinni, jafnvæginu milli framræsingar og endurheimtar. „Við miðum við það fjármagns em við fáum inn og framkvæmum samkvæmt því, svo er bara vonandi að það gangi það vel að við vinnum á þessari miklu losun sem á sér stað.“ 

Vonar að bændur fari að lögum

Votlendissjóður endurheimtir kannski votlendi á einum stað á meðan bóndi ræsir fram í næsta dal.  Það hefur ekki verið haldið utan um það síðastliðna áratugi ár hversu mikið er grafið af nýjum skurðum en ný rannsókn fræðimanna við Landbúnaðarháskólann bendir til þess að síðastliðin tíu ár hafi verið grafnir 1100 kílómetrar. Bjarni hjá Votlendissjóði vonar að bændur sem hyggjast ræsa fram sæki um framkvæmdaleyfi, eins og þeim ber skylda til. Landgræðslustjóri hafi nýlega sent sveitarstjórnum bréf og minnt á þetta.

„Þetta er ákveðið vandamál, ég hef heyrt af þessu og vil bara benda á að samkvæmt lögum verður að óska eftir framkvæmdaleyfi við framræsingu ef svæðið er meira en tveir eða þrír hektarar. Ég treysti því að sveitarstjórnir standi í því að taka á móti slíkum umsóknum og meti hvort þær séu hæfar og æskilegar til að vera framkvæmdar. Ég sé hins vegar ekkert að því þegar menn moka upp úr gömlum skurðum á landsvæði sem verið er að nýta til landbúnaðarframleiðslu en að menn séu að moka nýja skurði. Það má alltaf setja spurningarmerki við það því þar er bara losun gróðurhúsalofttegunda sem á sér stað,“ segir Bjarni. 

Debetmegin í bókhaldinu

Einar hjá Kolviði segir að í loftslagsbókhaldinu sé alltaf debet og kredit og binding skóga Kolviðar sé debetmegin á meðan það færi kredit megin ef ofanflóðasjóður myndi ryðja skóga til að setja upp varnir, til dæmis. Þetta séu tvö kerfi og þó að kreditliðurinn stækkaði og losun jykist umfram bindingu á Íslandi í heild hefði það ekki áhrif á viðskipti Kolviðar með kolefnisjöfnun. 

Hvað situr eftir? Leiðirnar eru ólíkar, það er loftslagsávinningur af þeim báðum en eins og staðan er í dag er ekki hægt að fullyrða að árangurinn vari að eilífu þá er ekki hægt að fullyrða að það að kaupa kolefnisjöfnun verði til þess að nettólosun frá Íslandi, eða losun á heimsvísu minnki eitthvað, það er mögulegt að jafna innan kerfis sem færist sífellt í átt að aukinni losun en ef fólk kolefnisjafnaði ekki yrði losunin auðvitað enn meiri.