Kolbeinn vill hefja formlegar viðræður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, vill að flokkurinn hefji formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Hann á von á að endanleg ákvörðun um hvort farið verði í slíkar viðræður liggi fyrir í dag. Hann segir það trúnaðarmál, í hverju ágreiningur um málið innan þingflokksins felst.

Þingflokkur VG fundaði í gær um hvort hefja ætti formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Engin niðurstaða varð af fundinum sem stóð fram á kvöld í gær. Hlé var gert á fundinum sem verður fram haldið klukkan eitt í dag.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, sat þingflokksfundinn í gær. Hann segir að á fundinum hafi þingflokkurinn fengið upplýsingar um hvernig hinar óformlegu viðræður hafi gengið. 

„Svo þurfum við að taka ákvörðun um það hvort það verði farið með þær eitthvað lengra. Það náðist ekki að klára það í gær en ég á von á að það verði tekin ákvörðun um það í dag,“ sagði Kolbeinn í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Í hverju felst ágreiningurinn?

„Þingflokksfundir eru trúnaðarmál þannig að fólk hefur bara sína skoðun á hvað eigi að gera. Ég get bara talað fyrir mig,“ segir Kolbeinn. „Þingflokksfundir VG eru yfirleitt langir. Og við tökum það alvarlega, hvort við eigum að halda áfram og fara í formlegar viðræður eða ekki og okkur finnst bara betra að ræða hlutina í þaula. En ég get bara sagt frá minni skoðun hvað það varðar. Ég er rosalega einfaldur maður og fyrir mér liggur þetta nokkuð ljóst fyrir. Vinstri græn sögðu það fyrir kosningar að við útilokuðum ekki neinn flokk. Mér finnst þá óheiðarlegt að koma eftir kosningar og segja „við meintum reyndar með því að við útilokuðum ekki neinn flokk nema Sjálfstæðisflokkinn.“ Það finnst mér óheiðarlegt.“

Kolbeinn bendir á að landsfundur VG hafi samþykkt að flokkurinn vilji leiða ríkisstjórn.  

„Og ég sem þingmaður er bara bundinn af samþykktum landsfundar. Þess vegna finnst mér þetta ósköp einfalt mál, þegar þú horfir á allt þetta, samþykktina sem við erum með á bakinu frá landsfundi og það sem við sögðum fyrir kosningar, þá finnst mér eðlilegt að kanna það hvort það sé grundvöllur fyrir því að mynda ríkisstjórn þar sem málefni Vinstri grænna eru sett á oddinn. Og það vitum við ekki fyrr en við erum komin í formlegar viðræður og einhver niðurstaða er komin út úr þeim,“ segir Kolbeinn.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi