Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kolbeinn skrifar undir hjá AIK

Mynd með færslu
 Mynd: AIK - Twitter

Kolbeinn skrifar undir hjá AIK

31.03.2019 - 18:55
Kolbeinn Sigþórsson skrifaði í dag undir samning við sænska úrvalsdeildarfélagið AIK í Stokkhólmi. Kolbeinn skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.

Kolbeinn sleit samningi sínum við franska félagið Nantes í upphafi mánaðar og hefur leitað að félagi síðan. Nágrannar AIK í Djurgarden voru einnig á höttunum eftir Kolbeini en hann hefur nú samið við AIK.

Kolbeinn mun leika í treyju númer 30 hjá AIK sem gerði markalaust jafntefli við Östersunds í 1. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í dag. Næsti leikur AIK er gegn Íslendingaliði Norrköping.

Kolbeinn hefur áður leikið með AZ Alkmaar og Ajax í Hollandi áður en hann gekk í raðir Nantes árið 2015. Kolbeinn spilaði aðeins 30 leiki á tæpum fjórum árum sínum hjá Nantes og skoraði í þeim þrjú mörk. Meiðsli settu þar stórt strik í reikninginn en Kolbeinn fór einnig á lán til tyrkneska stórliðsins Galatasaray árið 2016 en kom þar ekkert við sögu vegna meiðsla.

Kolbeinn hefur verið meiddur nánast linnulaust frá því að Ísland lauk keppni á EM í Frakklandi árið 2016. Hann sneri aftur á fótboltavöllinn þegar Ísland mætti Belgíu í Þjóðadeildinni í október og lék alls fjóra landsleiki fyrir Ísland fyrir áramót og skoraði í æfingaleik gegn Katar í nóvember. Hann var ekki í leikmannahópi Íslands sem mætti Andorra og Frakklandi í mánuðnum en aukin spiltími hjá AIK gæti greitt leið hann í landsliðið á ný.

Viðtal við Kolbein sem birt var á heimasíðu AIK má sjá að neðan.