Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kokkar rifta samningi við Arnarlax

07.09.2018 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Úr safni
Björn Bragi Braga­son, for­seti Klúbbs mat­reiðslu­meistara, segir að stjórn klúbbsins hafi ákveðið að rifta samningi við Arnarlax, sem ætlaði að styrkja við kokkalandsliðið. Þetta var ákveðið á fundi stjórnarinnar sem lauk undir hádegi. 14 landsliðskokkar sögðu sig úr klúbbnum í gær til að mótmæla samningnum. Björn Bragi segist vonast til að sátt eigi eftir að ríkja um störf kokkalandsliðsins.

 Samstarfssamningur Klúbbs matreiðslumeistara og Arnarlax var undirritaður með viðhöfn á veitingastaðnum Kolabrautinni í Hörpu í fyrrakvöld, en klúbburinn rekur Kokkalandsliðið. Sturla Birgisson, fyrrverandi þjálfari liðsins, reið á vaðið og sagði sig úr klúbbnum eftir að fréttir bárust af samningnum. Síðan þá hafa allir 14 liðsmenn landsliðsins sagt sig úr því. Í yfirlýsingu sem hópurinn sendi frá sér í gær segir meðal annars að hann vilji með þessu mótmæla ákvörðun stjórnar kokkalandliðsins að gera samning við fyrirtæki sem framleiðir lax í opnu sjókvíaeldi. Slíkir framleiðsluhættir séu ógn við villta lax- og silungastofna og hafi margvísleg neikvæð umhverfisáhrif á lífríki Íslands. Kokkarnir noti eingöngu afurðir sem framleiddar séu á sjálfbæran hátt og í sátt við náttúruna. Þeir geti því ekki tekið þátt í því að kynna, fyrir hönd Íslands, vörur sem framleiddar séu með þessum hætti.

Ekki hefur náðst í forsvarsmenn Arnarlax í dag.