Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kokkalandsliðið vann gull á Ólympíuleikum í Stuttgart

16.02.2020 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd: Klúbbur matreiðslumanna
Íslenska kokkalandsliðið vann til gullverðlauna á Ólympíuleikum matreiðslumeistara í Stuttgart í Þýskalandi í gær. Þetta var fyrri keppnisgreinin af tveimur sem liðið keppir í þetta árið, svokallað „Chefs Table“ og því fyrsta gullverðlaunin á þessum Ólympíuleikum. Meðal hráefna sem landsliðið notaði var hörpuskel, gæs, reykt ýsa, bleikja, Nordic wasabi, lamb og skyr.

Liðið keppir svo aftur á morgun í „Hot Kitchen“ sem er seinni grein liðsins í ár. Liðið hefur á síðustu árum raðað inn gullverðlaununum á alþjóðlegum mótum sem hefur tryggt þeim stöðu eins fremsta landsliðs í heimi, segir í tilkynningu frá Klúbbi matreiðslumanna.

„Ég er ótrúlega ánægður og þakklátur. Landsliðið hefur lagt ótrúlega mikið á sig bæði í undirbúningi og keppninni hérna úti og þau uppskera glæsilega,“ er haft eftir Birni Braga Bragasyni, forste Klúbbs matreiðslumanna.

Hátt í fjögur tonn af búnaði var sendur til Þýskalands en liðið þarf að setja upp fullbúið eldhús á keppnisstaðnum. Þá er ótalið það hráefni sem flytja þarf á staðinn en Kokkalandsliðið leggur áherslu á að nota sem mest af hágæða íslensku hráefni í matargerðina. 

Í Kokkalandsliðinu eru: Sigurjón Bragi Bragason, þjálfari Kokkalandsliðsins, Björn Bragi Bragason, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, varaforseti Klúbbs matreiðslumeistara, Kristinn Gísli Jónsson, Snorri Victor Gylfason, Sindri Guðbrandur Sigurðsson, Snædís Xyza Mae Jónsdóttir, Ísak Darri Þorsteinsson, Jakob Zarioh Sifjarson Baldvinsson, Ísak Aron Ernuson og Chidapha Kruasaeng. Auk þess fara með út aðstoðarmenn: Ari Þór Gunnarsson, Aþena Þöll Gunnarsdóttir, Dagur Hrafn Rúnarsson, Guðmundur Halldór Bender, Kristján Örn Hansson, Valur Bergmunsson, Jón Þór Friðgeirsson, Ragnar Marinó Kjartansson og Ívar Kjartansson. 

Hér má sjá fögnuð kokkalandsliðsins þegar tilkynnt var um sigurinn.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV