Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kóalabirnir í hættu vegna skógarelda

16.11.2019 - 12:35
epa07053669 An eight-months-old female koala cub holds on to the back of its mother 'Eora' at the zoo in Duisburg, Germany, 28 September 2018. The yet unnamed baby weighs 750 grams. More than 36 juveniles have been raised at the Kaiserberg since 1994, and some have been transferred to other zoological facilities.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
 Mynd: EPA
Á annað hundrað gróðureldar loga enn í austurhluta Ástralíu, og óhagstæð veðurspá bendir til að þeir séu síst á undanhaldi. Kóalabirnir eiga erfitt með að flýja og margir hafa orðið eldinum að bráð.

Á annað hundrað gróðurelda loga enn í austanverðri Ástralíu, allt frá Sydney í Nýju Suður-Wales í suðri, langt norður í Queensland-fylki.

Þótt enn brenni víða, tala yfirvöld og slökkvilið um stund milli stríða. Eldarnir voru enn fleiri og stærri fyrr í vikunni og veðurspá er afar óhagstæð næstu daga. Spáð er allt að 45 gráðu hita og heitum, þurrum vindi, kjöraðstæðum fyrir enn fleiri og stærri gróðurelda

Lítilli sem engri úrkomu hefur verið fyrir að fara á svæðinu, og raunar gera veðurfræðingar þar ekki ráð fyrir neinni úrkomu að gagni á þessum slóðum fyrr en í janúar. 

Fjögur hafa látist eftir gróðureldana, og yfir þrjú hundruð byggingar eyðilagst í Nýju Suður-Wales, þar sem yfir 10.000 ferkílómetrar kjarr- og skóglendis hafa orðið eldunum að bráð.

Ástralía er meðal annars þekkt fyrir blómlegt dýralíf, og íbúar skóga og kjarrlendis eiga undir högg að sækja á meðan eldarnir geysa. Kengúrur, fuglar og snákar hafa lagt á flótta á svæðinu en kóalabirnir eru í meiri hættu. Þeir bregðast gjarnan við utanaðkomandi hættu með því að reyna að koma sér í öruggt skjól í trjánum sem þeir hafast við í. Þeir verða því margir skógareldunum að bráð.

Í nágrenni Port Macquarie er talið að um helmingur af 700 dýra hjörð kóalabjarna hafi drepist í eldunum. Þá hafa fjölmörg dýr verið flutt til aðhlynningar á dýraspítulum með brunasár. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV