Klassíkin okkar: La Traviata

Mynd: RÚV / RÚV

Klassíkin okkar: La Traviata

01.09.2017 - 23:37

Höfundar

Libiamo ne’ lieti calici úr La Traviata eftir Giuseppe Verdi.

Flytjendur: Þóra Einarsdóttir, Elmar Gilbertsson, Kór Íslensku Óperunnar, Óperukórinn í Reykjavík, Karlakór Kópavogs, Synfóníuhljómsveit Íslands.

Giuseppe Verdi (1813–1901) var goðsögn í lifanda lífi, þjóðhetja og sameiningartákn í heimalandi sínu, Ítalíu. Þó að hinar geysivinsælu óperur Verdis, sem fylla nærri fjóra tugi, skarti fjölmörgum velþekktum aríum og hópatriðum nýtur þrælakórinn úr óperunni Nabucco sérstakrar stöðu í höfundarverkinu. Óperan staðfesti snilli tónskáldsins fyrir ítölskum óperuunnendum en þó að hún greini frá ástum og stjórnmálavafstri þá eru í bakgrunni raunir gyðinga sem verða fyrir barðinu á Nabucco (eða Nebúkadnesari), konungi Babýlóníu. Á þeim tímum þegar sameining og frelsisbarátta Ítalíu stóð yfir þótti kór hebresku þrælanna ríma vel við pólitíska baráttu samtímans, jafnvel svo mjög að síðar var stungið upp á að kórinn yrði hafður sem þjóðsöngur landsins.

Óperan La Traviata er ein allra vinsælasta ópera heims og aftur og aftur heilla ástir og örlög Violettu og Germonts óperuunnendur upp úr skónum. Þó að harmrænn dauði Violettu liggi í loftinu nánast frá upphafi verksins þá er hér gripið niður í óperuna þegar allt leikur í lyndi. Unga parið lyftir glösum í veislu með vinum sínum og gleðin er við völd. Þau syngja um áhyggjuleysi og fegurð sem alla þyrstir í. Lífinu er lifað í botn, jafnvel þó að harmurinn leynist handan við hornið.