Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Klarinettið á heima í tónlist Brahms

Mynd: - / Sinfóníuhljómsveit Íslands

Klarinettið á heima í tónlist Brahms

21.05.2019 - 14:13

Höfundar

Á sunnudaginn stilla klarinettuleikarinn Arngunnur Árnadóttir og píanóleikarinn Ben Kim saman strengi sína og flytja sónötur Brahms í Hörpu, en sónöturnar eru taldar með helstu perlum klassískrar kammertónlistar. Auk Brahms munu þau leika tónverk eftir Alan Berg.

„Ég spilaði fyrst sinfóníu eftir Brahms þegar ég spilaði í Sinfóníuhljómsveit unga fólksins um það bil sautján ára gömul. Þá spiluðum við fyrstu sinfóníuna hans. Ég man eftir að hafa hrifist af þessum hlýja en um leið tregafulla hljómi sem fylgir tónlist hans og tengt mikið við tónlistina,“ segir rithöfundurinn og fyrsti klarinettuleikari Sinfoníuhljómsveitar Íslands, Arngunnur Árnadóttir.

Erfitt að gera upp á milli verka Brahms

Arngunnur kemur fram á tónleikum á sunnudaginn næstkomandi í Hörpu ásamt Ben Kim sem er verðlaunaður píanóleikari sem býr og starfar í Berlín. Á tónleikunum munu Ben og Arngunnur flytja sónötur Brahms og tónverk eftir Alan Berg. Arngunnur nam klarínettuleik í Reykjavík og Berlín og hefur í sjö ár starfað í Sinfoníuhljómsveit Íslands. „Það er erfitt að gera upp á milli verka Brahms, mér finnast allar sinfóníurnar fjórar mergjaðar sem og öll kammertónlistin sem hann hefur skrifað fyrir klarínett: tríóið, kvintettinn og sónöturnar tvær.“

Arngunnur segir að Brahms hafi náð kjarna málsins í sambandi við klarinettið í þessum verkum sem flutt verða á tónleikunum. „Ég hef verið að spila svolítið af hljómsveitatónlist hans í vetur og líður svo vel í tónlistinni hans. Það er eins og klarinettið eigi sérstaklega vel heima í tónlist Brahms. Það er eitthvað við blæinn í hljóðfærinu sem rímar svo vel við hans tónlist.“

Búinn að gefast upp þegar klarinettið veitti innblástur

Arngunnur segir að Brahms hafi eiginlega búinn að gefast upp á tónsmíðum þegar sónöturnar voru samdar. „Hann var orðinn gamall og þreyttur. Hann var ekki innblásinn svo hann skrifaði vini sínum að hann ætlaði að fara að hætta þessu.“ Upp úr þessu fór Brahms til Meiningen en hann hafði áður verið viðriðinn hirðina þar og tónlistarlífið. Þar kynnist hann klarinettuleikaranum Richard Mühlfeld. „Brahms heyrði í honum á tónleikum og heillaðist algjörlega, bæði af hljóðfærinu og ekki síst í hans meðförum. Þá fann hann aftur fyrir innblæstri og byrjaði á að búa til klarinettutríó og klarinettukvintett og svo nokkru seinna sónöturnar. Það er ekkert lítill innblástur í þessum verkum, þau eru alveg með bestu kammertónlist sem fyrir finnst að mínu mati.“

Mynd með færslu
 Mynd: Rut Sigurðardóttir
Arngunnur og Ben kynntust á kammertónlistarhátíð á Íslandi

Alan Berg leyfði sér hluti sem aðrir gerðu ekki

Tónlist Alans Berg þykir mjög frábrugðin verkum Brahms. „Hann er allt öðruvísi en frábær tónlistarmaður finnst mér. Þeir eiga það reyndar sameiginlegt að hafa verið í Vín.“

Arngunnur segist heilluð af tónlist Alans. „Í tónlist sinni smættar hann allt niður svo það verður stundum eins og að horfa í gegnum smásjá að hlusta á þessi seinni Vínarskóla verk. Það er svo mikið sem gerist innan lítils ramma, rosalega fín blæbrigði.“ Arngunnur segir Alan Berg að mörgu leyti hafa verið frjálslegastan af sínum samtímamönnum. „Hann leyfði sér allskonar hluti sem hinir hefðu ekki gert.“

Tímabært að endurtaka leikinn

Arngunnur og Ben hafa þekkst í nokkur ár og áður leikið verk eftir Brahms og Alan Berg saman. „Við Ben kynntumst á Podium festival á Íslandi, kammertónlistarhátíð skipulagðri af ungum tónlistarmönnum. Þá var hann tiltölulega nýfluttur til Berlínar en ég á leið aftur heim til Íslands eftir að hafa verið í námi í Berlín. Í desember síðastliðinn spiluðum við Brahms-sónöturnar og Vier Stücke eftir Alan Berg í Berlín og nú er kominn tími til að endurtaka leikinn á Íslandi.“

Það eru enn fimm dagar í tónleikana en Arngunnur segir að undirbúningsferli og æfingar séu í fullum gangi. „Undirbúningsferlið felst helst í að spila sig saman og umfram allt njóta þessarar frábæru síðrómantísku tónlistar.“

Rætt var við Arngunni Árnadóttur í Hátalaranum en innslagið má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan. Tónleikarnir í Hörpu á sunnudaginn hefjast klukkan fjögur.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Meðgönguljóð - Endahnútur

Bókmenntir

Hinsta kveðja Meðgönguljóða

Bókmenntir

Tilnefningar til maístjörnunnar kynntar

Bókmenntir

Orð um bækur í beinni útsendingu