Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kjósendur óvanir að kjósa nýjan forseta

02.01.2016 - 12:34
Chairman of the Independence Party Bjarni Benediktsson casts his ballot Saturday April 27, 2013, as Icelanders vote in a General Election.  According to polls the parliamentary election could return to power the center-right parties that led the country
Mynd úr safni. Mynd: AP Photo/Brynjar Gauti
Þjóðin er í lítilli þjálfun að kjósa forseta þegar sitjandi forseti er ekki í framboði. Það hefur aðeins gerst fjórum sinnum síðan Ísland varð lýðveldi árið 1944. Forsetakosningarnar fara fram 25. júní. Nægur tími er til stefnu fyrir frambjóðendur því þeir þurfa ekki að skila inn framboðum fyrr en fimm vikum fyrir kjördag.

Síðan Ísland varð lýðveldi 1944 hafa aðeins fjórum sinnum farið fram almennar forsetakosningar þar sem sitjandi forseti er ekki í framboði. Það var síðast fyrir tæpum 20 árum þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kosinn og þar áður 16 árum fyrr, 1980, þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti. Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn forseti 1952 og Kristján Eldjárn 1968.

Þeir sem eru 35 ára og með óflekkað mannorð eru kjörgengir til forseta. Forsetaefni þurfa að skila inn meðmælum frá minnst 1500 manns úr öllum landsfjórðungum. Samkvæmt lögum skal kjósa fjórða laugardag í júní, hann er nú þann 25. en var 30. árið 2012. Framboðsfrestur rennur út fimm vikum fyrr í síðasta lagi, eða þann 21. maí. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla má hefjast í fyrsta lagi þann 25. mars.

Forsætisráðuneytið birti fyrstu auglýsingu um síðustu forsetakosningar 20. mars 2012 að því er fram kemur á kosningavef innanríkisráðuneytisins. Þá var auglýst mánuði fyrir kjördag hverjir væru í framboði. Frambjóðendur voru sex: Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Hannes Bjarnason, Herdís Þorgeirsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson og Þóra Arnórsdóttir. Forsetaframboð þess sjöunda, Ástþórs Magnússonar var ekki gilt.