
Píratar eru minnsti flokkurinn á Alþingi, fengu 5,1 prósent atkvæða í Alþingiskosningunum 2013 og þrjá þingmenn. Nú á miðju kjörtímabili blasir gjörbreytt staða við, því samkvæmt skoðanakönnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka og stuðningi við ríkisstjórnina, mælist fylgi Pírata 23,9 prósent, mest allra flokka. Í könnun Fréttablaðsins sem birtist í dag mælist fylgi Pírata 29,1 prósent.
En hvaða skilaboð eru kjósendur að senda ríkisstjórninni með þessu mikla stuðningi við Pírata?
„Þetta óneitanlega kom á óvart og er reyndar ekki í fyrsta skipti sem koma svona sérstakar kannanir þar sem einn nýr flokkur ef svo má segja, nær óvænt mjög miklu flugi,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. „Við höfum séð þetta gerast alloft áður á liðnum árum og áratugum. Þetta eru kannski fyrst og fremst skilaboð um það að fólk er orðið óþreyjufullt að sjá árangurinn af starfi stjórnmálamanna en sá árangur er þó byrjaður að skila sér, samkvæmt öllum mælikvörðum.“