Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kjósa þarf í þriðja sinn á innan við ári

12.12.2019 - 08:30
Erlent · Asía · Ísrael
epa08063656 General view of Knesset members during a vote on a bill to dissolve the Israeli Parliament at the Knesset plenum (parliament) in Jerusalem, Israel, 11 December 2019. Media reports state that the Israeli government vote on a bill to dissolve the Israeli Parliament and will go to a third elections presumably on 02 March 2020 after negotiations talks between the Likud Party and the Blue and White Party failed.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
Frá fundi á ísraelska þinginu í gær. Mynd: EPA-EFE - EPA
Ljóst er að kjósa þarf í Ísrael á nýju ári, en frestur sem stjórnmálaflokkum var gefinn til að mynda nýja ríkisstjórn rann út í gærkvöld. Líklega verður kosið í byrjun mars og verða það þriðju þingkosningarnar í Ísrael á innan við ári. 

Kosningar voru haldnar í Ísrael í apríl og september og í báðum þeirra fengu Likud-flokkurinn, flokkur Benjamins Netanyahus forsætisráðherra, og Bláhvíti-flokkurinn, flokkur Benny Gantz, langflest atkvæði eða um fjórðung hvor flokkur. Hvorugum tókst þó að tryggja sér nægilegan stuðning til að mynda nýja stjórn. 

Reuven Rivlin, forseti Ísraels, hvatti þá stóru flokkana til að mynda saman stjórn, hugsanlega með þátttöku fleiri flokka, en það gekk ekki heldur. Nú er líklegt að kosið verði í Ísrael 2. mars, en eftir á að staðfesta dagsetninguna.

Samkvæmt könnun sem birt var í fyrrakvöld, virðist flokkur Benny Gantz nú hafa meira fylgi en Likud og fengi allt að 37 þingsæti ef kosið yrði nú. Likud fengi 33 þingsæti.

En langt er til kosninga og óvíst um stöðu Netanyahus, sem hefur átt undir högg að sækja vegna ásakana um spillingu. Búist er við leiðtogakjöri innan Likud á næstu vikum og hyggst Gideon Saar, fyrrverandi innanríkisráðherra Ísraels, bjóða sig fram gegn Netanyahu.