Kjörsókn víðast hvar betri en í fyrra

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Kjörstöðum var lokað klukkan tíu. Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórnum um allt land er kjörsóknin örlítið betri en í fyrra.

Í Norðvesturkjördæmi var kjörsókn síðast tekin saman klukkan hálfsex. Þá höfðu rétt tæplega fimmtíu prósent greitt atkvæði en klukkan sex i fyrra voru það 53 prósent. Annars staðar er kjörsókn nokkurn vegin sú sama í fyrra eða jafnvel nokkru meiri. Í Norðausturkjördæmi eru heildartölur um kjörsókn ekki teknar saman en á Akureyri höfðu 8.533 kosið klukkan níu, 60,96 prósent. Það er tveimur og hálfu prósenti minna en á sama tíma í fyrra. Þar eru þó utankjörfundaratkvæði töluvert fleiri en í fyrra, 2721 hefur greitt atkvæði utankjörfundar en þeir voru 1850 í fyrra.

Í Suðurkjördæmi höfðu 62,2 prósent greitt atkvæði klukkan níu, það eru fleiri en höfðu greitt atkvæði á sama tíma í fyrra. Í Suðvesturkjördæmi höfðu 43.229 greitt atkvæði. Það eru fleiri en í fyrra en það hefur fjölgað svo mikið í kjördæminu að prósentutalan er lægri. 62,2 prósent höfðu greitt atkvæði klukkan níu en 62,7 prósent á sama tíma í fyrra. Kjörsókn í reykjavíkurkjördæmunum er aðeins betri en í fyrra. Klukkan níu höfðu 65,16 prósent greitt atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi suður en rúm 64 prósent í fyrra. Í Reykjavíkurkjördæmi norður höfðu rétt tæp 65 prósent greitt atkvæði en rúm 64 á sama tíma í fyrra. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV