Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Kjörsókn undir 70% einu sinni áður

01.07.2012 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Kjörsókn á landsvísu í nýafstöðnum forsetakosningum var 69,2%. Einungis í forsetakosningunum árið 2004 var lakari kjörsókn í forsetakjöri. Kjörsókn í gær var mest í Norðaustur- og Norðvesturkjördæmum, en lökust í Reykjavíkurkjördæmi Suður.

Af þeim tæplega 236 þúsund sem voru á kjörskrá í forsetakosningunum í gær, greiddu rösklega 163 þúsund atkvæði, sem þýðir að kjörsókn var ríflega 69,2 prósent á landsvísu.

Inni í heildartölunni eru auðir og ógildir atkvæðaseðlar sem voru rösklega fjögur þúsund talsins.

Mest var kjörsóknin í Norðausturkjördæmi eða 72%, en þar voru rétt rúmlega 29.000 á kjörskrá. Norðvesturkjördæmi var með næstmestu kjörsóknina, litlu minni en Norðausturkjördæmi, 71,8%, en þar voru ríflega 21.000 á kjörskrá.

Í Suðvesturkjördæmi kusu tæplega 69,9% af þeim ríflega 62.000 kjósenda á kjörskrá, og næst á eftir kom kjörsókn í Reykjavíkurkjördæmi suður sem mældist tæplega 68,8%, en þar voru tæplega 45.000 á kjörskrá.

Næst lakasta kjörsóknin var í Suðurkjördæmi, en þar kusu rösklega 68,3% kjósenda en ríflega 33.000 voru á kjörskrá.

Lakasta kjörsóknin var í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar var kjörsóknin rúmlega 66,5%, en þar voru rösklega 45.000 á kjörskrá.

Kjörsókn í forsetakosningunum í gær er mun lakari en í alþingiskosningunum árið 2009, en þá mældist kjörsókn ríflega 85% og einungis einu sinni áður hefur verið lakari kjörsókn í forsetakosningum, það var árið 2004 þegar Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon buðu sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni sitjandi forseta. Kjörsókn þá mældist tæplega 63%, en þá skiluðu tæplega 21% kjósenda auðu.

Kjörsókn vanalega yfir 70%

Forsetakosningarnar þá og í gær, eru einu kosningarnar til embættis forseta Íslands þar sem kjörsókn hefur mælst undir 70%.

Niðurstöður kosninganna í gær voru mjög í samræmi við síðustu skoðanakönnun Capacent Gallup fyrir kjördag, sem voru birtar 28. júní. Þá mældist Ólafur Ragnar með tæplega 51% fylgi, en hann hlaut tæplega 53% atkvæða í gær.

Í könnun Gallup mældist Þóra Arnórsdóttir með tæplega 34% fylgi, en hún hlaut rösklega 33% greiddra atkvæða í nýafstöðnum forsetakosningum.

Kjörsókn á landinu öllu var 69,2%. Mest kjörsókn var í Norðausturkjördæmi, 72%, og Norðvesturkjördæmi, 71,8%, en minnsta kjörsóknin var í Reykjavíkurkjördæmi norður 66,5%.

Kjörsóknin í Suðurkjördæmi var 68,3%, í Reykjavík suður 68,8% en í Suðvesturkjördæmi 69,9%

Þó kjörsóknin í forsetakosningunum í ár hafi verið lítil var hún enn minni árið 2004 þegar Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon buðu sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni. Þessi tvö ár skera sig þó talsvert úr í kjörsókn því þetta eru einu forsetakosningarnar þar sem kjörsókn hefur verið lakari en 70%.

Árið 1988 bauð Sigrún Þorsteinsdóttir sig fram gegn Vigdísi Finnbogadóttur sitjandi forseta en þá var kjörsókn 72%. Árið 1996 var kjörsóknin 85,9%. Árið 1980, þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti var mesta kjörsókn í sögu forsetakosninga á Íslandi en þá var kjörsókn 90,5%.