
Kjörkassinn frá Grímsey kominn í land
Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis, segist nú getað andað léttar. Kjörkassinn og hans ferðalag hefur valdið yfirkjörstjórn nokkrum áhyggjum.
Kassinn var í gær sendur sjóleiðina af stað til Grímseyjar. Þegar Grímseyjarferjan komst ekki í land í eynni var gripið til þess ráðs að henda kassanum í sjóinn, þar sem tveir menn á trillu veiddu hann upp og komu í land í eynni. Kjörseðlarnir gleymdust hinsvegar um borð í ferjunni og var þyrla Landhelgisgæslunnar fengin til að fljúga með þá til Grímseyjar seinnipartinn í gær.
Í morgun voru Grímseyingar við öllu búnir. Þeir kusu snemma, en síðasti kjósandi í eynni kaus klukkan 10:13. Af þeim sem eru heima, kusu allir nema einn. Anna María Sigvaldadóttir, fulltrúi í kjörnefnd í Grímsey, segir kosningum fyrir alþingiskosningar aldrei hafa lokið svo snemma í eynni.
Það var tvísýnt með flug úr Grímsey í morgun og varðskip Landhelgisgæslunnar var í viðbragðsstöðu á Akureyri til að sækja kjörgögnin ef ekki yrði hægt að fljúga. En það birti til í Grímsey og flugvél Nordlandair lenti þar klukkan 12:15 og kjörkassinn var farinn af stað skömmu síðar. Hann er því kominn í hús á talningarstað í Brekkuskóla á Akureyri.