Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kjör á íbúðalánum sögulega góð

Mynd: Grímur Sigurðsson / RÚV
Kjör á íbúðalánum eru sögulega góð um þessar mundir, að sögn Elvars Orra Hreinssonar, sérfræðings í greiningu hjá Íslandsbanka. Af 20 milljón króna láni er hægt að spara allt að 200.000 krónur í vaxtakostnað á ári með því að taka hagstæðara lán, sé fólk með um 4 prósenta vexti á núverandi verðtryggðu láni og tekur nýtt verðtryggt lán með 3 prósenta vöxtum.

„Vextir hafa lækkað og kjörin á markaðnum eru bara sögulega góð um þessar mundir og það skapar auðvitað tækifæri, sérstaklega fyrir þá sem eru kannski á gömlum lánum á föstum kjörum til þess að skoða sín mál og þá mögulega endurfjármagna á mun hagstæðari kjörum og spara sér þá pening fyrir vikið,“ sagði Elvar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Þegar fólk hættir með eldri lán þarf í sumum tilvikum að greiða uppgreiðslugjald. Elvar segir að færri lánastofnanir leggi slík gjöld á nú en áður. Í sumum tilvikum sé vaxtalækkunin það mikil að á einu ári sé hún jafn há og uppgreiðslugjaldið. 

Vextir komnir undir 2%

Lán Íbúðalánasjóðs eru ósamkeppnishæfustu lánin, að sögn Elvars og bera um fjögurra prósenta vexti og eru verðtryggð. Einn lífeyrissjóður bjóði upp á lán með 4,6 prósenta vöxtum óverðtryggt, bankarnir bjóði um þriggja prósenta vexti verðtryggt og sumir lífeyrissjóðir bjóði upp á verðtryggð lán á undir tveggja prósenta vöxtum. „Að fara úr 4,2 prósentum hjá Íbúðalánasjóði í þrjú prósent hjá bönkunum er rosalegur sparnaður,“ segir Elvar. 

Spara allt að 200.000 krónur á ári

Elvar tók dæmi um 20 milljón króna verðtryggt lán með 4,2 prósenta vöxtum. Ef fólk með þannig lán færir sig yfir til bankanna og fær lán með 3 prósent vöxtum sparist 200.000 krónur í vaxtakostnað á ári, sem í sumum tilfellum geti verið sama upphæð og uppgreiðslugjaldið. Það verði þó að taka lántökugjöld með í dæmið en húsnæðislán séu tekin til margra ára. „Þannig að þetta er fljótt að borga sig á líftíma lánsins, það er engin spurning.“

Hægt er að bera mismunandi lánakjör saman á vefsíðunum aurbjorg.is og herborg.is.