Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kjólar sem skipta um lit og síkka eða styttast

06.05.2019 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Stafrænn fatnaður sem mælir hjartslátt og hjálpar blindum, og kjólar sem skipta um lit, voru meðal annars til umræðu ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Akureyri. Stafræn framleiðslutæki þróast hratt og mikilvægt er talið að bæta aðgengi ungs fólks að henni.

Á ársfundinum var fjallað var um tækni og nýsköpun frá ýmsum hliðum. Stafræn framleiðslutækni var þar áberandi og fram kom að auka þyrfti aðgengi að stafrænum smiðjum, svokölluðum FabLab smiðjum. Þær hafa nú verið starfræktar hér í ellefu ár og eru orðnar átta víða um land. Næsta skref er að innleiða þessa tækni í menntakerfið.

MIkilvægt að tryggja aðgang að starfrænum smiðjum

„Nú erum við a komast inn í það,“ segir Frosti Gíslason, verkefnastjóri FabLab Ísland hjá Nýsköpunarmiðstöð. „Þau settu fram þingsályktunartillögu um að auka aðgengi að stafrænum smiðjum og nú er stóra spurningin hvernig menn ætla að tryggja reksturinn til framtíðar. Þannig að fólki um allt land verði tryggt áframhaldandi aðgengi að þessum smiðjum.“

Miðla nýjungum í samstarfsneti FabLab smiðja

Og hann segir þetta eina af þeim leiðum sem geri Íslendinga þátttakendur að fjórðu iðnbyltingunni. Samstarfsnet FabLab smiðja víða um heim færi íslenskum smiðjum allt það nýjasta í rannsóknum. „Og við getum fært það beint inn í menntakerfið og beint inn í iðnaðinn.“

Starfrænn fatnaður bæði til gagns og gamans

Stafræn framleiðslutækni er sífellt að breiðast út og færast inn í fleiri þætti framleiðsunnar, meðal annars í textíl. Það með segir Frosti að efnið í fötunum okkar verði snjallara. „Með því að tengja ýmisskonar skynjara og örtölvur sem við erum að forrita til þess að láta fötin gera það sem við viljum að þau geri.“ Og þá geti kjólar til dæmis skipt um lit og verið með innbyggðum mótor til að stytta þá eða síkka. Og svo má hafa af þessu mikið gagn. „Við getum mælt hjartsláttinn og hvernig heilsan er. Þetta getur hjálpað blindum til dæmis til þess að rata betur, til þess að skynja umhverfið betur og þetta getur hjálpað fólki í hjólastólum,“ segir hann.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV