Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kjarvalsfáninn of flókinn fyrir saumavélarnar

Mynd: Hörður Lárusson / Hörður Lárusson

Kjarvalsfáninn of flókinn fyrir saumavélarnar

24.05.2018 - 07:44

Höfundar

Fána-hugmyndir Kjarvals og Kristjáns tíunda Danakonungs eru nú sýndar í fyrsta sinn í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Grafíski hönnuðurinn Hörður Lárusson lét sauma fánana.

„Ég er á leiðinni til Kaupmannahafnar með þrjá fána, þrjár tillögur að íslenska fánanum sem komu fram á sínum tíma. Það er í fyrsta lagi tillaga Kjarvals að fánanum sem nú hefur verið saumuð í fyrsta sinn. Í öðru lagi er það vara-tillagan sem gerð var, ef svo hefði farið að Kristján X konungur hefði ekki samþykkt íslenska fánann á sínum tíma, og í þriðja lagi er það tillaga konungsins sjálfs,“ segir Hörður Lárusson grafískur hönnuður sem opnaði í dag sýningu í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn á þessum tillögum.

Löng leit

Fánanefnd var sett á laggirnar árið 1913 til að finna rétta fánann fyrir Ísland. Hörður hefur skoðað tillögurnar á undanförnum árum og nú halda rannsóknirnar áfram. Alls bárust 28 hugmyndir að fánanum, flestar í rituðu máli. Ein þeirra er núverandi þjóðfáni Íslands. Hörður rannsakaði þessar tillögur, bætti upp með eigin hugmyndaflugi og umbreytti tillögum í myndrænt form. Afraksturinn var gefinn út á bók, sem nefnist einfaldlega Fáninn.

Úr dagbókum konungs

Hugmyndir Kristjáns tíunda að fána fyrir Ísland fundust nýlega í dagbókarfærslum konungs. Sá fáni er eins og sá danski nema hvað að í reitnum hægra megin uppi er mynd af fálka á bláum grunni. „Ég heyrði af því fyrir tveimur árum að Borgþór Kjærnested hefði rekist á gögn í Danmörku þar sem óformleg tillaga konungs kemur fram,“ segir Hörður sem að telur líklegt að Kristján hafi sleppt því að leggja tillögu sína fram því að hann þóttist viss um að Íslendingar vildu hana ekki. Því lagði konungur hana ekki fram því að hann gerði jú ekki mistök. 

Myndir frá Herði vegna sýningar í Köben 2018
 Mynd: Hörður Lárusson
Fáni Kjarvals, Vara-tillagan og hugmynd Konungs.

Flókinn saumaskapur

Nýju fánarnir voru saumaðir á Hofsósi eins og allir íslenskir fánar, nema hvað að fáninn sem nú er gerður í fyrsta sinn eftir hugmynd Kjarvals var saumaður í Klæðskerahöllinni í Reykjavík.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes S. Kjarval - Fáninn – Crymogea
Tillaga Jóhannesar S. Kjarvals.

„Konurnar á Hofsósi leyfðu mér að fylgjast með störfum sínum á síðustu dögum og í raun er saumastofan mín Mekka,“ segir Hörður. „Þær voru hins vegar fegnar því að Kjarvalsfáninn var ekki valinn á sínum tíma því að hann er flóknastur og vélarnar þeirra réðu ekki við hann.“

Að þykja vænt um fánann

Hörður er mjög hrifinn af fánum og áhuginn hefur í raun bara undið upp á sig. „Mig hefur langað að bæta svolítið fánaþekkinguna og notkunina hjá okkur. Við notum fánann í raun frekar lítið og ég held það sé að mörgu leyti ákveðin hræðsla. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að nota fánann eins mikið og við getum. Við eigum bara að bera virðingu fyrir honum. Þetta er tákn þjóðar okkar og það er bara gott að þykja vænt um það.“

Sýniningin Fáni fyrir nýja þjóð verður opnuð í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn miðvikudaginn 23. maí. Hún stendur fram til 5. september næstkomandi. Viðtalið við Hörð Lárusson úr Víðsjá má heyra hér fyrir ofan. Í innslaginu syngur Langholtskirkjukórinn undir stjórn Jóns Stefánssonar Til fánans eftir Sigfús Einarsson við ljóð Einars Benediktssonar.

 

Myndir frá Herði vegna sýningar í Köben 2018
 Mynd: Hörður Lárusson
Sýningin er hluti að hátíðahöldum vegna 100 ára fullveldisafmælis Íslands.