Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Kjálka stolið af strönduðum búrhval

26.03.2012 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Kjálki búrhvals, sem rak á land í Beruvík í þjóðgarðinum á Snæfelllsnesi og sagt var frá í fréttum í gær, hefur verið sagaður af dýrinu. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur kom að hræinu í morgun og þá var búið að hirða hálfan kjálkann og hvaltennurnar þar með.

Haraldur telur að þetta hafi gerst laust fyrir hádegi, og þjófurinn hafi haft hraðar hendur og flýtt sér af vettvangi, en hann skyldi sögina eftir í polli í fjörunni. Haraldur segir að Íslendingar hafi hingað til fárast yfir því þegar hendur eru sagaðar af górillum til að gera úr þeim öskubakka, en ef til vill séum við engu betri þegar kemur að verndun náttúruminja, jafnvel innan þjóðgarðs en Haraldur telur að nú verði tennurnar silfurslegnar og seldar. Lögreglu- og náttúruverndaryfirvöldum hefur verið tilkynnt um glæpinn.