Kísilryk losað á Grundartanga

07.05.2014 - 09:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Þéttur mökkur af kísilryki steig upp frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga í morgun, þar sem svokölluð reyklosun fór fram. Ástæðan er viðhald í hreinsikerfi, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu. Reyklosunin stóð í 11 mínútur og um 250 kíló af kísilryki fóru út í andrúmsloftið.

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri hjá járnblendiverksmiðjunni segir að þetta hafi verið gert til að vernda svokallaða filterpoka í hreinsikerfi eins af ofnum verksmiðjunnar. Á meðan fór útblásturinn óhreinsaður út, en kísilrykið er að öllu jöfnu síað úr útblæstrinum. Öll svona tilvik séu skráð, enda eru skilyrði í starfsleyfi verksmiðjunnar sem lúta að því hversu miklu má sleppa út í umhverfið. 

Samkvæmt yfirliti yfir reyklosun árið 2013, sem fyrirtækið sendi Umhverfisstofnun, eru starfsleyfismörkin bundin við að reyklos fari ekki yfir 1,5% af rekstrartíma. Í fyrra var reyklosunin talsvert undir þeim mörkum; 0,03 fyrir Ofn 1 og 2, en 0,15% fyrir Ofn 3. Lengsta reyklosið var við Ofn 3 í fyrra, og stóð í 102 mínútur. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi