Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kínversk kvikmyndahátíð lögð niður vegna ritskoðunar

11.01.2020 - 18:20
Erlent · Asía · Kína · ritskoðun
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - Pixabay
Kvikmyndahátíð í Kína hefur lagt upp laupana vegna ritskoðunar stjórnvalda, að sögn aðstandenda hátíðarinnar. Tilkynning þess efnis var birt á WeChat samfélagsmiðlinum á fimmtudag. Þar segir meðal annars að aðstandendur hátíðarinnar sjái sér ekki fært að halda sjálfstæða kvikmyndahátíð í núverandi aðstæðum. Ekki var farið nánar út í það í tilkynningunni en yfirlýsingin kemur í kjölfar þess að forseti Kína, Xi Jinping, herti verulega ritskoðun á kínversku fjölmiðla- og afþreyingarefni.

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin CIFF (e. Chinese International Film Festival) var fyrst haldin árið 2003 og er ein þeirra sjálfstæðu kvikmyndahátíða sem hafa verið haldnar hvað lengst þar í landi. Á hátíðinni hafa meðal annars verið sýndar kvikmyndir sem fjalla um samkynhneigð og þriggja gljúfra stífluna, stærstu stíflu heims, en kínversk stjórnvöld viðurkenndu árið 2011 að bygging hennar hafi skapað ýmis vandamál. 

Kínversk stjórnvöld hafa löngum stundað öfluga ritskoðun og sem dæmi eru kínverskum netnotendum settar takmarkanir, sérstaklega þegar kemur að efni sem talið er sýna stjórnvöld í óæskilegu ljósi. Eftir að Xi Jinping tók við forsetaembættinu hefur ritskoðunin aukist enn meir samhliða því að framboð á efni sem sýnir hinn ráðandi Kommúnistaflokk í jákvæðu ljósi hefur aukist.