Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Kínverjar vilja fjárfesta á Flúðum

19.01.2012 - 17:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Kínverskir fjárfestar vilja leggja fjármuni í byggingu heilsuþorps á Flúðum. Að líkindum um 6 til 7 milljarða króna. Hvatamaður verkefnisins segist ekki óttast að fjárfestingin verði umdeild.

Til stendur að reisa heilsuþorp á Flúðum. Þar mun fólk geta keypt eða leigt húsnæði og dvalið sér til heilsubótar. Nú hafa staðið yfir viðræður um að kínverska fyrirtækið CSST International komi að uppbyggingunni, sem fjárfestir og mögulega sem hluthafi.

„Við erum búin að fá frá þeim viljayfirlýsingu með ákveðnum tölulegum staðreyndum sem þeir vilja halda fram. Við þurfum að skoða þær og athuga hvernig þær falla að okkar viðskiptaáætlun,“ segir Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður og forsvarsmaður fyrirtækisins Heilsuþorps á Flúðum ehf. en hann var gestur Síðdegisútvarpsins. Þegar báðir aðilar hafa undirritað viljayfirlýsinguna þá
hefst samningagerðin. „Þá koma væntanlega menn frá þeim hingað og við setjumst yfir þetta allt saman.“ 

Kínversku fjárfestarnir myndu að líkindum leggja 6,5 til 7 milljarða í verkefnið. Árni segist ekki óttast að slík fjárfesting verði umdeild, líkt og áform Huang Nubo um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. „Ég get ekki ímyndað mér það. Þessir menn eru bara að koma með peninga inn í landið og skilja þá eftir hér en fá auðvitað arð af sínum aurum.“

Vonast er til þess að heilsuþorpið skapi 150 störf. Árni er bjartsýnn á að vel gangi að selja húsnæði í Heilsuþorpinu. Ferðaþjónustufyrirtæki, einstaklingar og félagasamtök hafi sýnt áhuga. „Nú og það kæmi mér ekkert á óvart þó Kínverjar vildu tryggja sér einhverja aðstöðu þarna
fyrir sína ferðamenn.“